137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:43]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Það er kostulegt að hlusta á þingmenn sem leggja mat á hvernig þetta muni fara með lánshæfismat Íslands. Ég held að það sé best að taka dæmi til að reyna að útskýra hvað felst í þeirri óvissu sem er í þessum samningi. Segjum sem svo að íslenska ríkið þurfi á láni að halda og fái heimsókn frá erlendum lánardrottni. Lánardrottinn spyr: Hvað skuldar ríkið? Hver er vaxtabyrðin og hverjar eru endurgreiðslurnar hjá okkur á næstu árum? Svarið við því er: Við vitum ekki hver skuldabyrðin er fyrr en eftir 7 ár. Við vitum ekki hver vaxtabyrðin er fyrr en eftir 7 ár. Við vitum ekki hverjar endurgreiðslurnar verða fyrr en eftir 7 ár. Þá svarar þessi sami lánardrottinn: Já, já, það er ágætt. Ég skal lána ykkur á bestu kjörum.

Það er augljóst að það hefur áhrif á lánshæfismatið, sama hvað hver segir. Óvissan sem þessi samningur skapar er slík að við verðum að staldra við og það þýðir ekkert að skýla sér á bak við að vera stjórnarþingmaður í þeim umræðum.

Ég hitti einn af útrásarvíkingunum fyrir nokkrum dögum sem ég kannast ágætlega við. Hann spurði mig: Hvaða ráðgjafa var samninganefndin, sem er algerlega óreynd í svona samningum, með? Ég sagði: Ég veit ekki til þess að þeir hafi verið með ráðgjafa. Þá svaraði þessi útrásarvíkingur: Við vorum kannski vitlausir en við vorum aldrei svo vitlausir að vera ekki með ráðgjafa. [Hlátur í þingsal.]