137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:55]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Ég harma það að hafa lokað hv. formann Framsóknarflokksins af í þessari umræðu. Hann var búinn með sinn kvóta en það hefði verið gaman að heyra viðbrögð hans við þessari orðræðu. (Gripið fram í.)

Ég hafna hins vegar þeim orðum sem hv. þm. Eygló Harðardóttir lét falla að einhver hér inni — ég held að ég geti talað fyrir munn hreinlega allra — hafi haldið því fram að Evrópusambandið leysti öll vandamál íslensku þjóðarinnar. Hvílíkt og annað eins! Þetta hefur enginn sagt í þessari pontu og mun sennilega aldrei segja. (Gripið fram í.) Aldrei hefur nokkur maður sagt þetta í þessari pontu og aldrei held ég nokkur samfylkingarmaður úti í samfélaginu og hvað þá aðrir. (Gripið fram í.) Nei, ég held að ég geti fyllilega tekið þetta fram og stend við það hér og nú. Og hvað þá að kenna þessa pólitík við blauta drauma.