137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

störf þingsins.

[13:59]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F):

Virðulegi forseti. Það var hálfundarleg spurningin sem kom frá hv. þm. Sigmundi Erni Rúnarssyni til formanns Framsóknarflokksins. Það er staðreynd að það eru mismunandi skoðanir á málinu en það sem við framsóknarmenn höfum gert og kannski umfram Samfylkinguna t.d. er það að við höfum farið í gegnum Evrópuumræðuna á málefnalegum grunni og reynt að vinna málið eins faglega og við getum. Þetta snýst ekki um trúarbrögð, ekki ef við eigum að fara þarna inn. Við höfum reynt að meta kostina og gallana vegna þess að það er enginn einn einfaldur sannleikur í þessu máli.

Hv. þm. Þórunn Sveinbjarnardóttir sagði að Framsóknarflokkurinn væri á harðahlaupum frá eigin ályktun. Það er rétt að við ályktuðum að við værum reiðubúin að fara í könnunarviðræður en það verður að halda því til haga og það er mjög mikilvægt að það var gert með skilyrðum. Skilyrðin eru þarna til staðar, þau eru afar ströng og það höfum við framsóknarmenn lagt áherslu á ef hugsanlega verður farið í aðildarviðræður.

Ég hefði reyndar miklu frekar viljað ræða Icesave enn á ný vegna þess að hér kom hv. þm. Álfheiður Ingadóttir og hélt því fram fullum fetum að það hefði verið gerður samningur í haust. Þetta var viljayfirlýsing og viljayfirlýsingin er ekki skuldbindandi fyrir Alþingi Íslendinga. Síðan hvenær geta einstakir menn í ráðuneytum landsins (ÁI: Ég má ekki tala meira.) skuldbundið Alþingi Íslendinga? (Forseti hringir.) Við höfum tækifæri til að segja nei þegar málið kemur fyrir (Forseti hringir.) Alþingi og ég skora á þingmenn Vinstri grænna að standa við eigin sannfæringu í því máli. (Gripið fram í: Heyr, heyr!)