137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

íslenska undanþáguákvæðið.

41. mál
[14:57]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ég tek undir þau markmið að Íslendingar verði í fararbroddi í að draga úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda. Ég tel raunar að í þeim miklu þjóðfélagsbreytingum sem verða í heiminum öllum í kjölfar þess að þjóðir þurfa að taka á sig þessar skuldbindingar felist mikil tækifæri fyrir Íslendinga og við eigum að vera í fararbroddi í þróun á grænni tækni og umhverfisvænni atvinnusköpun. Nú þegar bíða fyrirtæki í röðum eftir svörum frá stjórnvöldum um orku til slíkra verka, umhverfisvæna orku. Og það liggur fyrir að slík fyrirtæki skapa mun fleiri störf en gamaldags meira mengandi fyrirtæki sem nú þegar eru komin lengra í því að fá leyfi til orkuöflunar hér á landi.

Ég held því að það sé ekki seinna vænna fyrir Íslendinga, fyrir framtíðina, til þess að við séum í fararbroddi og til að reisa Ísland við í þessari kreppu að við mörkum okkur þá stefnu að vera umhverfisvænasta (Forseti hringir.) og sjálfbærasta ríki heims og í fararbroddi í grænni tækni með allri þeirri atvinnusköpun og verðmætum sem því fylgja. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)