137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

íslenska undanþáguákvæðið.

41. mál
[14:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Vigdís Hauksdóttir) (F):

Frú forseti. Ég þakka hæstv. umhverfisráðherra svörin. Það kom ágætlega fram í máli hennar hvernig staðan er. Ég þakka líka hv. þingmönnum fyrir þátttöku í þessum umræðum. Þetta er mikilvægt mál fyrir framtíð okkar, sérstaklega vegna þess hversu alvarleg staðan er hér á landi. Það sýnir einnig það sem við glímum við í samningaviðræðum okkar t.d. vegna Icesave-skuldbindinganna, hvað við erum smá og máttvana gagnvart öðrum þjóðum. Að viðhalda íslenska ákvæðinu er í rauninni okkar sjálfsagði réttur því að ákvæðið kom í raun og veru ekki upp úr neinu.

Hlutföllin eiga að ráða, eins og ég sagði. Íslenska ákvæðið er 75% af öllum okkar losunarheimildum og það kemur fyrst og fremst til vegna þess að við brennum ekki kol hér eða annað mjög mengandi brennslueldsneyti. Það kemur líka til vegna þess að efnahagur okkar er svo lítill í sniðum. Þess vegna fagna ég því mjög sem fram kom í máli hæstv. umhverfisráðherra sem eru nýjar upplýsingar fyrir mig, að það standi jafnvel til að fara með ákvæðið til Kaupmannahafnar og semja um það.

Það eru alveg nýjar fréttir fyrir mig og ég fagna því innilega að svo sé því að ef við mundum sleppa því, hæstv. umhverfisráðherra, spyr ég þig, af því að þú átt eftir að tala hér á eftir mér: Hver á að borga fyrir losunarheimildina þegar við erum komin inn í evrópska kerfið með sölu og kaup losunarheimildanna? Er það stóriðjan sem er hér á landi? Er það íslenska ríkið? Ef það er íslenska ríkið sem þarf að kaupa þetta í gegnum þessar heimildir, ætlar það þá að sjá til þess að hér verði stofnaður sérstakur auðlindasjóður og það verði virkilega farið að rukka leigu fyrir notkun á þessum auðlindum? Það langar mig til að heyra en ég fagna því að íslenska ákvæðið skuli vera enn þá inni í myndinni.