137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

miðstýring háskólanáms.

72. mál
[17:14]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Ræða mín áðan sem ég náði ekki fyllilega að klára er ekki síður innlegg í þessa fyrirspurn eða umræðu um hana þannig að ég ætla að freista þess að klára ræðuna núna, (Gripið fram í: Framhald.) þetta er sem sagt framhald af ræðunni áðan.

Ég varpaði fram hugmynd um hvort það væri ekki ákveðin gefandi hugsun í þessu samhengi að hugsa háskólasamfélagið á Íslandi í þrennu lagi. Það væru háskólarnir fyrir norðan og austan, Háskólinn á Akureyri, Hólar, Háskóli á Ísafirði og mögulegur háskóli á Egilsstöðum sem mynduðu einhvers konar blokk. Síðan gæti maður séð fyrir sér að Bifröst, Listaháskólinn og Háskólinn í Reykjavík mynduðu blokk númer tvö. Háskóli Íslands, Hvanneyri og Keilir mynduðu síðan þriðju blokkina. Maður getur síðan séð fyrir sér, vegna þess að samstarf Hvanneyrar við háskólasetur í landinu er mjög mikið, að þar verði einhvers konar miðstöð háskólasetra. Með þessari leið er unnið gegn (Forseti hringir.) þeirri miðstýringu sem hv. þm. Sigmundur Ernir Rúnarsson hefur áhyggjur af og ég hef áhyggjur af líka.