137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

diplómanám fyrir fólk með þroskahömlun.

74. mál
[17:26]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Sigmundur Ernir Rúnarsson) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka mjög fyrir þetta svar hæstv. menntamálaráðherra, Katrínar Jakobsdóttur. Það er mikilvægt í umræðunni að hún sem menntamálaráðherra ætli að beita sér fyrir því að framhald verði á þessu námi. Þegar við stöndum frammi fyrir gríðarlega erfiðu verkefni við niðurskurð ríkisútgjalda er afskaplega mikilvægt að hann bitni ekki á þeim sem síst skyldi. Við verðum að hafa það í huga við þær erfiðu og viðkvæmu aðgerðir sem við erum að vinna við þessa dagana, í nefndum þingsins, í þinginu og í ráðuneytum, að það bitni ekki á því fólki sem síst af öllu tók þátt í því að steypa þjóðinni í þá glötun sem margir segja að þeir búi við um þessar mundir. Það skal aldrei verða svo, og síst með kröftum þess sem hér talar, að þeir sem hrepptu minnstu bitana af borðum neyslusamfélagsins beri þyngstar byrðarnar þegar upp verður staðið frá því verkefni sem við erum að vinna þessa dagana.

Ég skora því á hæstv. menntamálaráðherra að hún horfi einkanlega til þeirra hópa sem búa við lökust skilyrði þegar kemur að menntamálum, að þeir hópar muni ekki fara verst út úr þeim aðgerðum sem fram undan eru.