137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

breytingar á raforkulögum.

75. mál
[17:43]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmenn hafa nú verið, hvað á ég að segja, helst til valkvæðir þegar þeir hlustuðu á mig áðan. Vegna þess að það sem ég var að lýsa er sú dagsetning sem nefnd er í bráðabirgðaákvæði laganna. Ég sagði hins vegar að það skipti okkur öllu máli að fara að marka hér orkustefnu, að marka samþætta atvinnustefnu. Það er vinna sem er að fara af stað og sem ég vil og við í þessari ríkisstjórn erum búin að setja okkur að markmiði að verði unnin hratt og örugglega. Það er það sem þarf til að flýta hér fyrir framkvæmdum og án efa þarf, að lokinni þeirri vinnu, að breyta þessum lögum aftur. En það verður ekki fyrr en eftir árið 2010. Sú heildarendurskoðun sem nú fer fram milli allra þingflokka og milli allra þeirra hagsmunaaðila sem ég nefndi hér áðan, er eðlileg. Og þegar menn eru að feta í gegnum hvert einasta smáatriði laganna er eðlilegt að sú vinna taki tíma þó að annað komi hér til þings.

Ég nefndi það líka áðan að það var síðast reynt árið 2007 að breyta þessari skilgreiningu á stórnotendum en það fór ekki í gegnum Alþingi. Við eigum svo eftir að sjá hvort það gengur núna með hið nýja Alþingi sem hér situr. Það var m.a. hugsað fyrir t.d. gagnaverin sem byrja smátt en skala sig síðan upp, eins og maður segir.

En það sem skiptir máli er að vinna þeirrar orkustefnu sem unnið verður að á næstu mánuðum, það er mjög mikilvægt að horft verði sérstaklega til bæði tímalengdar ferilsins og upphafs rannsókna á orkukostum og til nýtingar og hefðbundinnar samningagerðar sömuleiðis. Hefðbundin samningagerð orkufyrirtækjanna, þ.e. tímalengd samningsins og fleira, fellur eins og staðan er í dag betur að stóriðju en fleiri og smærri kostum á borð við sólarkísil eða gagnaver. Það skiptir máli að við breytum hér um kúrs og förum að horfa (Forseti hringir.) líka til minni aðila og uppbyggingar á því sviði.