137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

77. mál
[17:59]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Ég vil beina fyrirspurn til hæstv. dómsmálaráðherra vegna frétta um skerðingar á mannskap hjá þyrlusveit Landhelgisgæslunnar. Á síðustu mánuðum höfum við verið með þrjár þyrlur nokkuð vel dekkaðar en samt skilst mér að það geti ekki ávallt verið tvær þyrlur til reiðu. Fram kom í skriflegu svari hæstv. dómsmálaráðherra til hv. þm. Róberts Marshalls að með þremur þyrlum megi gera ráð fyrir því að Landhelgisgæslan hafi enga þyrlu tiltæka í allt að 10 daga á ári, hún hafi aðeins tiltæka eina þyrlu í allt að einn og hálfan mánuð á ári en við þær aðstæður takmarkast flughraði við 20 sjómílur frá ströndu. Í dag má segja að við höfum ekki dekkað einn og hálfan mánuð á ári með þeim kosti sem við búum við.

Nú er hins vegar búið að segja upp þremur þyrluflugmönnum þannig að við erum að fækka þeim og miðað við skriflegt svar hæstv. dómsmálaráðherra munum við ekki geta komið sjófarendum til bjargar í 3–4 mánuði á ári ef þeir lenda í vandræðum á hafi úti. Ég vil gjarnan spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort það sé réttur skilningur að það séu 3–4 mánuðir sem við dekkum ekki. Það kom fram á opinberum vettvangi í ræðu sem Árni Bjarnason, formaður Félags skipstjórnarmanna, hélt á sjómannadaginn síðasta, að þetta væru 5–6 mánuðir á ári og finnst mér skeika þarna talsverðu.

Ég geri mér grein fyrir því að það er geysilega dýrt að leigja þyrlu og kemur fram í skriflegu svari hæstv. ráðherra hvað það kostar. Ég var sjálf að leika mér að því að giska á kostnaðinn við að leigja þyrlu í einn mánuð og giskaði á 10 millj. Ég bað einn hv. þingmann sem situr í salnum að giska líka og hann giskaði á 4–5 millj. En svarið er að það kostar tæpar 60 millj. á mánuði að leigja þyrlu, þ.e. 700 millj. kr. á ári. Áhöfnin kostar 120 millj. á ári, þ.e. 10 millj. á mánuði, þannig að það kostar 70 millj. á mánuði að leigja þyrlu og áhöfn.

Það er auðvitað mikil upphæð og ég vil spyrja, af því að leigukostnaðurinn er greinilega að sliga Landhelgisgæsluna, hvort hæstv. dómsmálaráðherra hafi eitthvað leitað eftir því t.d. við lífeyrissjóðina hvort þeir gætu komið að þessu máli þannig að við gætum losnað við þessi ofboðslega háu leigugjöld. Svo vil ég líka spyrja hæstv. dómsmálaráðherra hvort hún telji það forsvaranlegt að verja ekki (Forseti hringir.) sjómenn okkar í 3–4 mánuði á ári.