137. löggjafarþing — 20. fundur,  16. júní 2009.

þyrlusveit Landhelgisgæslunnar.

77. mál
[18:13]
Horfa

dómsmálaráðherra (Ragna Árnadóttir):

Virðulegi forseti. Ég þakka þær umræður og ábendingar sem fram hafa komið við þessa umræðu. Ég hefði átt að ljúka máli mínu áðan með því að segja að auðvitað er málið ekki búið í ráðuneytinu heldur erum við áfram að reyna að leita leiða til að að bæta björgunargetu þyrlnanna.

Hvað varðar það að líta til annarra þjóða á Landhelgisgæslan í mjög nánu samstarfi bæði við landhelgisgæsluna í Noregi og í Danmörku. Það er mikið og gott samstarf á milli þessara stofnana og hafsvæðið í kring er vaktað af ýmsum aðilum. Ég held að allar hagræðingar í tækjaleigu og öðru eigi að skoða mjög vel, hvort verið sé að gera hlutina á sem hagstæðastan hátt og ég þakka þá ábendingu sem kom áðan. Hvað ábyrgðina varðar mun ég ekki skorast undan því að bera ábyrgð á þessum málaflokki og að þessi mál séu með forsvaranlegum hætti.

Ég tel líka að stjórnendur Landhelgisgæslunnar og starfsfólk allt sé, eins og forstjóri Landhelgisgæslunnar lýsti í byrjun mánaðarins, hugsjónafólk og vinni vel. Auðvitað er gott að vita á meðan við vinnum að lausninni að það skuli vera slíkur vilji og svo gott fólk sem þarna starfar að hægt sé að bjarga málunum eins vel og mögulegt er en ég held að það leysi okkur hins vegar ekki undan því að finna viðunandi lausn á þessum málum til frambúðar.