137. löggjafarþing — 22. fundur,  18. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samningana.

[18:35]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Frú forseti. Við erum búin að fá í dag örstutta kynningu á samningi sem eru afarkostir fyrir íslenska þjóð. Þetta er samningur sem ekki má samþykkja á Alþingi.

Mér leikur forvitni á að vita frá hæstv. fjármálaráðherra hvernig hann ætlar að sjá til þess að eignir okkar verði ekki teknar ef við getum ekki borgað. Ef við eigum ekki gjaldeyri til að borga þær skuldir hvað kemur þá til fullnustu? Hvaða eignir geta Hollendingar þá tekið til dæmis? Þessi samningur er allur á kostnað Íslendinga, allur.

Það vakti athygli okkar í þeirri kynningu sem við fengum áðan að þegar sá sem kom og kynnti samninginn fyrir hönd ríkisins var spurður um greiðsluáætlun, þá er verið að vinna hana núna. Er það virkilega svo að það hafi ekki verið gerð nein áætlun um það hvernig við eigum að geta borgað af þessum samningi? Það er mjög merkilegt ef svo er.

Síðan leikur mér líka forvitni á að vita og velti því hér upp: Var það virkilega þannig að ríkisstjórnin hélt að af því að þetta væri samningur sem er einkaréttareðlis gæti hún bara samþykkt hann án þess að þingið fengi að vita nokkurn skapaðan hlut? (Utanrrh.: Aldrei.) Það lá í orðum áðan, hæstv. utanríkisráðherra, að hér yrði farið í gegn með samninginn án þess að kynna hann fyrir þinginu vegna þess að þetta væru einkaréttarákvæði. Ég bara spyr: Er þetta þannig? Og ráðherra segir líklega þá að svo sé ekki.

Mig langar aðeins að vitna í þennan samning. Í 7. gr. samningsins er talað um að ef við gerum aðra samninga sem bera t.d. hærri vexti en sá samningur sem við erum væntanlega að gera nú við Hollendinga eða ríkisstjórnin vill gera við Hollendinga — ég vona að þingið ætli ekki að samþykkja þennan óskapnað — geta Hollendingar gjaldfellt samninginn og heimtað sömu vexti, þeir geta hækkað vextina á samningnum. Finnst mönnum þetta eðlilegt? Er ráðherra klár á því, spyr ég bara, hvort þetta sé svona?

Í 16. gr., eins og kom fram áðan að nokkru leyti, kemur fram að Íslendingar verði að reka sín mál fyrir breskum og hollenskum dómstólum, ef eitthvað kemur upp. En Hollendingar mega sækja okkur í hvaða lögsögu sem er, hvar sem er í heiminum, það er ekkert sem bindur þá. Ég velti því fyrir mér hvort þetta sé samningatækni sem menn eru stoltir af.

Svo er það 11. gr. þessa samnings við Hollendinga og hún er mjög athyglisverð. Þar eru fjölmörg ákvæði um hvað gerist verði samningurinn gjaldfelldur, ef Hollendingar ætla að gjaldfella samninginn. Það er hreint með ólíkindum að svona lagað skuli vera sett á blað, að hollenska ríkið geti gjaldfellt samninginn án þess í raun að spyrja Ísland. Þeir þurfa að fá uppáskrift frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum, ef ég skil þetta rétt.

Síðan er grein 11.1.11, sem er mjög merkileg. Það er dæmi um það sem við erum að afsala okkur hér. Ef Íslendingar breyta lögum til þess t.d. að vernda eignir sínar sem hér eru geta Hollendingar gjaldfellt samninginn. Hvaða skjól er í slíkum samningi? Hvað er eitthvert sjö ára skjól ef þetta er þannig að ef við ætlum að verja eigur okkar, breyta lögum sem snerta þennan samning megi annar samningsaðilinn einfaldlega fella hann, gjaldfella hann? Þá vaknar aftur sú spurning: Hvaða eignir verða þá til á móti?

14. maí 2004 átti hæstv. fjármálaráðherra, þá þingmaður, orðastað við þáverandi forsætisráðherra og kallaði þann forsætisráðherra gungu og druslu. Ég ætla ekki að leggja þessi orð mér hér í munn en einhverra hluta vegna koma þau upp í huga mér. (Gripið fram í.)