137. löggjafarþing — 23. fundur,  19. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[17:23]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef framsóknarmenn og sjálfstæðismenn væru við stjórn segði ég bara: Guð hjálpi þjóðinni, vegna þess að hvernig væri staðan þegar velferðarkerfið er látið drabbast niður (Gripið fram í.) þegar við erum með tugi milljarða í afgang en við erum þó að reyna að verja það eins og kostur er í 170 milljarða niðurskurði. Ef hv. þingmaður hefur lesið það frumvarp sem hér er til umræðu sér hann að verið er að hlífa velferðarráðuneytunum um þar sem minnsti niðurskurðurinn verður. Þetta verður allt sársaukafullt að því er reksturinn varðar. Við skerum miklu minna niður í velferðarráðuneytunum og í menntamálaráðuneytinu en í öðrum ráðuneytum.

Við förum líka í ýmsa hluti sem voru heilagir og ekki mátti hreyfa við í tíð framsóknarmanna og Sjálfstæðisflokksins. Við lækkum hér verulega ferðakostnað, risnukostnað. Við skerum niður nefndarlaun. Við lækkum háar tekjur í ríkiskerfinu. Væntanlega hefur það ekki farið fram hjá hv. þingmanni að við erum að víkka út heimildir kjararáðs til að lækka laun þeirra ríkisstarfsmanna sem eru með milli 1 og 2 millj. kr. í tekjur á mánuði. Allt mun það skila sér. Við munum líka taka á sérfræðikostnaði sem blés út í tíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna og er það kannski orðið 8 milljarðar (Gripið fram í.) eða meira núna. Við erum því að færa það allt saman niður. Við skerum niður bruðlið og fitulagið í ríkiskerfinu sem kom á í tíð framsóknarmanna og sjálfstæðismanna, það er þannig sem við förum í þessi mál. Ef hv. þingmaður mundi horfa með sanngirni á þessi mál er t.d. ekki verið að gera neitt að því er varðar það frítekjumark sem öryrkjar hafa. Þar er þó frítekjumark í lífeyriskerfinu upp á 25 þús. kr. sem ekki skerða tekjur almannatrygginga. Við erum líka að setja á frítekjumark núna að því er varðar lífeyristekjur, tekjur ellilífeyrisþega, til að milda það högg (Forseti hringir.) sem kemur af því að við þurfum að hækka skerðingarhlutfall tekjutryggingar á nýjan leik. (Forseti hringir.) Það er því allt gert og það munum við, þessi ríkisstjórn, sýna, til að vernda (Forseti hringir.) kjör þeirra sem verst hafa það. Jafnframt er verið að skoða málefni húsbyggjenda (Forseti hringir.) og íbúðarkaupenda og það skulum við sannarlega gera, það mun sjást í þingsal á næstu vikum.