137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

upplýsingar um Icesave-samninginn.

[15:12]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Varðandi svar við fyrstu spurningunni kemur það væntanlega í ljós í kröfulýsingarferlinu hve margir, annars vegar forgangskröfuhafar og hins vegar almennir kröfuhafar, geta lýst kröfum í bú gamla Landsbankans en það er örugglega umtalsverður fjöldi.

Varðandi það á hvaða gögnum þessi breska endurskoðunarstofnun byggði, þá þekki ég það að sjálfsögðu ekki en ég geri ráð fyrir að hún hafi nálgast gögn frá skilanefnd gamla Landsbankans enda erfitt að meta málið nema hafa þau undir höndum. Ég vil þó setja þann fyrirvara á að sérfróðir aðilar sem hafa skoðað þá skýrslu telja að hún kafi kannski ekki mjög djúpt í málið, og ég held að mat skilanefndar Landsbankans sjálfs og þeirra endurskoðunarskrifstofa og lögfræðiskrifstofa sem skilanefndin hefur sér til aðstoðar séu væntanlega bestu fáanlegar upplýsingar um þetta mál.

Svarið við þriðju spurningunni er já. Ég hef séð yfirlit yfir þessar eignir. Ég hef skoðað það með forustumönnum skilanefndar Landsbankans og ég hef séð nýjasta mat á því sem staðfestir í aðalatriðum óbreytta stöðu eins og hún var metin fyrr í vetur. Slíkt yfirlit verður örugglega aðgengilegt fyrir hv. þingmenn að því marki sem það er það ekki nú þegar, því að skilanefnd Landsbankans hefur veitt almennar upplýsingar og sett á vefinn almennar upplýsingar um flokkun þessara eigna og hlutfall þeirra milli Íslands, Bretlands, Hollands og Kanada en þar liggja þessar eignir aðallega, í þessum fjórum löndum.

Ég er búinn að sitja á Alþingi eitthvað á 27. ár og mér er það vel ljóst að þingmenn eiga að sjálfsögðu að taka upplýstar ákvarðanir og hafa öll gögn sem fáanleg eru til að byggja á afstöðu sína, item hafa tíma til að rannsaka málin og kynna sér þau. Í stórum málum af þessu tagi þarf auðvitað öll málsmeðferð að vera vönduð og við munum leggja okkur fram eins og við mögulega getum að auðvelda þingmönnum að hafa slíkan aðgang að gögnum.