137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Heilsufélag Reykjaness.

[15:30]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Fyrst ein örlítil leiðrétting. Viðkomandi aðilar hafa náð eyrum heilbrigðisráðuneytisins og þá þess sem hér stendur. Í stjórnarsáttmála ríkisstjórnarinnar er vikið að heilsutengdri heilbrigðisþjónustu, enda hefur Ísland upp á mikið að bjóða í þeim efnum. Við eigum fallegt land og getum boðið upp á gott umhverfi, hreint loft, sundlaugar undir beru lofti og leirböð, og fólk sem býr yfir kunnáttu til að nudda vellíðan í gesti okkar.

Það sem hv. þingmaður víkur hins vegar að hér er nýting á skurðstofum á sjúkrahúsum á Suðurnesjum. Þar vandast málið, þar er ekki alveg allt sem sýnist. Hv. þingmaður segir að fyrir aðkomumenn greiði erlendir aðilar. Hverjir eru það? Það eru almannatryggingakerfin á Norðurlöndum og annars staðar í Evrópu. Það er einkum horft til Evrópu að því er mér skilst en um þau mál standa talsverðar deilur. Þetta er nokkuð sem er núna til umfjöllunar á vettvangi Evrópusambandsins, hvernig eigi að fara með viðskipti á heilbrigðisþjónustu yfir landamæri.

Fyrir dyrum stendur fundur heilbrigðisráðherra Norðurlandanna í Jönköping í Svíþjóð þar sem tekið verði á þessum málum. Um þetta er ekki fullkomin sátt, nema síður sé, og þar eru atriði sem við viljum að sjálfsögðu horfa nánar til.

Varðandi nýtingu á skurðstofum á Suðurnesjum og annars staðar (Forseti hringir.) eru umræður um það í gangi. Í morgun var ágætur fundur þar sem saman komu fulltrúar allra heilbrigðisstofnana á suðvesturhorninu þar sem m.a. var verið að skoða þau mál.