137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

Bankasýsla ríkisins.

124. mál
[17:26]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F):

Virðulegur forseti. Það er stutt síðan við ræddum um eignaumsýslufélag ríkisins og nú tölum við um Bankasýslu ríkisins. Það er því miður þannig, og kannski óþarfi að tala um það og öllum kunnugt, að við erum stödd í ástandi þar sem verið er að ríkisvæða allflest fyrirtæki landsins og fjármálafyrirtækin fóru, eins og komið hefur fram í ræðu, á aðra hliðina og enduðu í fangi ríkisins og við því þarf auðvitað að bregðast með einum eða öðrum hætti. Hér liggur fyrir frumvarp sem gerir tilraun til að fjarlægja hið pólitíska vald, komast svokallaða armslengd frá hinu pólitíska valdi og gera það af meiri fagþekkingu og faglegheitum. Frumvarpið tekur á ýmsum þáttum sem eru verkefni þessarar stofnunar, Bankasýslu ríkisins, og markmið laganna er að leggja áherslu á endurreisn og uppbyggingu og stuðla að virkri og eðlilegri samkeppni á markaði, tryggja gegnsæi, tryggja virka upplýsingamiðlun til almennings. Jafnframt hefur þessi tilvonandi stofnun heimild til að setja á fót og fara með eignarhlut ríkisins í félögum sem samræmast hlutverki og markmiðum.

Í 4. gr. frumvarpsins er farið yfir verkefnin og þau eru eins og ég sagði áður margvísleg og ekki einasta eins og hér hefur komið fram að framfylgja eigendahlutverki ríkisins, sem er auðvitað mjög nauðsynlegt að koma fram með skýra eigendastefnu og í sjálfu sér merkilegt að það hafi ekki gerst fyrr. En í þessum markmiðum og verkefnum eru þetta kannski orðnir svolítið flóknir hlutir sem sumir hverjir stangast jafnvel hver á við annan. Vil ég þá aðeins nefna í sambandi við samkeppnissjónarmið að við erum að tala um að breyta formi á eigendastefnu, sem hefur kannski verið ómeðvituð, að hafa hana bæði dreifða þar sem fagráðuneytin hafa setið sjálf með hvert sitt ohf ef um slíkt er að ræða eða stofnanir en ekki að koma þeim öllum til að mynda í skjól hjá fjármálaráðuneytinu og útbúa þannig miðlæga stefnu eins og hér er skýrt í athugasemdum við frumvarpið, í almenna hlutanum. Í 3. tölulið hans er fjallað um að hér sé verið að færa sig til miðlægs skipulags til að leggja sterka áherslu á ríkið sem eiganda og þar komi skýrar fram aðskilnaður milli eigandahlutverks ríkisins og annarra hlutverka sem ætti að vera jákvætt og meiri eining um hlutverk ríkisins sem eiganda og í samræmi við fyrirkomulag. Það byggist auðvitað á því að um faglegri vinnu verði að ræða og það gangi eftir sem ætlunin er með frumvarpinu. Það er klárlega betri yfirsýn með því að hafa þetta undir einum hatti og miðlæg þekking á eigendahlutverkinu verður augljóslega líka betri þannig.

Þeir aðilar sem þarna verða skipaðir af fjármálaráðherra í stjórn eiga auk þess að safna saman upplýsingum frá öllum fjármálafyrirtækjum og hafa betri yfirsýn og þekkingu á öllu því sem þar er, að útbúa reglur um eigandahlutverk ríkisins og hvernig menn ætla að ganga fram. Þeir eiga jafnframt að efla og styrkja samkeppni og gæta þess vandlega að trúnaðarupplýsingar um rekstur og starfsemi einstakra fjármálafyrirtækja fari ekki á milli. Það verður að segjast eins og er að það eru gerðar gríðarlegar kröfur til þessara aðila. Maður veltir fyrir sér hvort hægt hefði verið að ná þessum sjónarmiðum fram með öðrum hætti og hafa kosti þessa miðlæga skipulags um eigendahlutverkið en dreifa að einhverju leyti öðru út úr þessari miðlægu hugmynd. Þá langar mig að nefna hvort ekki hefði verið betra, eins og kom fram í umræðu um eignaumsýslufélagið og hefur reyndar komið fram í ræðum og er tillaga í minnihlutaáliti hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar, að skipa valnefnd sem mundi velja stjórnarmenn í eignaumsýslufélagið, væri ekki í raun og veru betra að þeir kæmu að þessari Bankasýslu? Og svo mætti velta fyrir sér hvort samkeppnissjónarmiðin eigi hér við eða hvort eftirlitsþáttur Fjármálaeftirlits og Samkeppniseftirlits eigi ekki í raun að fara með þetta.

Ég er að velta því upp, frú forseti, hvort við séum að stofnanavæða, gera of mikið úr því sem þarf að gera til að koma skýrri eigendastefnu ríkisins á framfæri. Hvort ekki sé hægt að gera þetta með einhverju öðru móti, hvort það mætti, eins og komið hefur fram, ræða um eignarhaldsfélag. Það væri líka möguleiki að hafa ákveðið vald í fjármálaráðuneytinu en þá stangast það auðvitað á við þá ósk okkar allra að búa til framlengingu, þessa handleggjarfjarlægð frá hinu pólitíska valdi. Ég held að hér sé á ferðinni frumvarp sem eigi eftir að fara inn í viðskiptanefnd og ég held að það væri ekkert óeðlilegt, þó að það sé e.t.v. ekki hefð fyrir því, að málinu væri jafnframt vísað til efnahags- og skattanefndar. Hv. efnahags- og skattanefnd vann geysilega vel að eignaumsýslufrumvarpinu, það gerbreyttist reyndar í meðförum nefndarinnar og ég held að það eigi kannski fyrir þessu frumvarpi að liggja líka að framtíð þess verði sú að taka verulegum breytingum í átt til þeirrar gagnrýni sem hér hefur komið fram.

Það hefur líka komið fram að hér sé um tímabundna starfsemi að ræða, til fimm ára eða skemur og á þeim tíma eigi að undirbúa tillögur að sölu eignarhluta ríkisins í fjármálafyrirtækjum með einum eða öðrum hætti. Bankasýsla ríkisins er stórt nafn og er kannski m.a. eins konar einkavæðingarnefnd hæstv. fjármálaráðherra undir þessu nafni ásamt því að gera sitthvað fleira. Bankasýsla þessi með þremur starfsmönnum og forstjóra og hugsanlega fleirum með kostnaði upp á 70–80 millj. á ári í fimm ár er u.þ.b. 350–400 millj. sem er eins og hæstv. fjármálaráðherra sagði réttilega sjálfsagt brotabrot í stærðargráðunni sem við erum að fjalla um þessa dagana en er engu að síður um 350–400 millj. í áætlaðan kostnað í upphafi án þess að við vitum hvernig það endar.

Ég held að það sé nauðsynlegt að fjalla mjög faglega um þetta og skoða alla fleti málsins í viðskiptanefnd og eins og eins og ég sagði væri ekki óeðlilegt að efnahags- og skattanefnd fjallaði um málið líka.

Ég ætla í lok máls míns, frú forseti, að bregðast aðeins við, hér var rætt um áðan að setja ætti aðra hluti eins og Byggðastofnun og Íbúðalánasjóð inn í þetta. Ég held reyndar í ljósi þess hvernig við höfum horft upp á fjármálafyrirtækin fara á hliðina hvert af öðru að ég geti mælt fyrir munn allflestra sem um það hafa fjallað að það sé mikil blessun að framsóknarmönnum tókst að verja það að Íbúðalánasjóður stóð af sér öll áföll í stjórnun í mörg ár og að hann skuli vera til enn. Ég held að eitt af því galnasta sem við gerðum í þessu tilviki væri að skella Íbúðalánasjóði inn í Bankasýslu ríkisins og leggja hann síðan niður á fimm árum. Ég get fullyrt að við framsóknarmenn mundum koma hér upp nokkrum sinnum áður en það gerðist og andmæla kröftuglega.