137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluörðugleikum.

116. mál
[18:37]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Bhr):

Frú forseti. Í dag er fjöldi smárra og minni fyrirtækja í vandræðum sem þarf að bregðast við. Hjá þessum félögum starfar fjöldi manna sem mun missa vinnuna ef ekkert verður að gert. Oft þarf svo lítið til að fyrirtæki nái að rétta úr kútnum. Þá getur fagleg og óháð aðstoð skilið á milli feigs og ófeigs.

Fyrir nokkrum árum leit Ráðgjafarstofa um fjármál heimilanna dagsins ljós og sú stofnun hefur reynst heimilunum og fjölskyldunum í landinu gríðarlega vel og forðað mörgum frá gjaldþroti. Ég held að enginn vilji í raun hugsa til þess hvernig heimilin væru stödd í dag ef þeirrar stofu nyti ekki við núna. Sömu meðulum má beita á smærri fyrirtæki sem lenda í vandræðum. Það er okkur öllum í hag að fyrirtækin haldi sjó, fólk haldi störfum sínum og atvinnulífið nái að blómstra á ný. Ég tel að stofnun ráðgjafarstofu fyrirtækja í greiðsluörðugleikum sé skref í þá átt. Það er ljóst að ekki er hægt að bjarga öllum fyrirtækjum en ráðgjafarstofa af þessu tagi getur líka lágmarkað það tjón sem gjaldþrot óhjákvæmilega veldur. Ég tel því brýnt að ráðgjafarstofa fyrirtækja í greiðsluerfiðleikum verði stofnuð sem allra fyrst.