137. löggjafarþing — 24. fundur,  22. júní 2009.

þjóðaratkvæðagreiðslur.

117. mál
[19:57]
Horfa

Flm. (Birgitta Jónsdóttir) (Bhr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er hjartanlega sammála því að við þurfum að vanda vinnubrögðin og gefa okur þann tíma sem við þurfum fyrir þetta frumvarp. Mér finnst reyndar að við ættum að senda beint út á netið alla þessa nefndarfundi og bjóða almenningi að taka virkan þátt í þessu. Ég held jafnframt þar sem ég þekki Íslendinga og hafandi reynt mikið að fá fólk til að skrifa undir ýmislegt er varðar þjóðarhag að við þurfum ekki að hafa miklar áhyggjur af því að þjóðaratkvæðagreiðslu verði misbeitt. Það þyrfti þá mjög einbeittan brotavilja og ég sé þar einhvern veginn ekki stórt hlutfall þjóðarinnar og 10% er stórt hlutfall fyrir undirskriftir. Það er mjög erfitt að fá svo stóran hluta þjóðarinnar til að hafa fyrir því að skrifa undir. Það þyrfti þá að vera verulega stórt mál. Ég ætla að hv. þingmaður þurfi ekki að hafa miklar áhyggjur af því að það verði misnotað.