137. löggjafarþing — 27. fundur,  26. júní 2009.

ráðstafanir í ríkisfjármálum.

118. mál
[21:41]
Horfa

Frsm. minni hluta efh.- og skattn. (Tryggvi Þór Herbertsson) (S):

Virðulegi forseti. Þá er búið að mæla fyrir framhaldsnefndaráliti og þetta er á seinustu metrunum. Það kom mér mjög á óvart á þessum litla fundi sem við áttum í efnahags- og viðskiptanefnd áðan hvernig hlutirnir þróuðust raunverulega og snerust. Hér hefur verið talað um vörugjöldin, það var hætt við að hækka virðisaukaskatt og farið að tala um að setja á vörugjöld en þegar það var til umræðu á fundi í efnahags- og skattanefnd í morgun var sú leið raunverulega slegin út af borðinu sem ófær út af alþjóðasamningum samkvæmt tilvitnun í tollasérfræðing í Brussel. Ég spurði út í þetta mál og þá kom í ljós að þetta eru einhver önnur vörugjöld. Ég verð að segja að ég sem hélt að ég væri með málin nokkurn veginn á hreinu er hálfruglaður í þessu öllu. Hvað er hægt og hvað er ekki hægt í tengslum við alþjóðasamninga, og hver raunverulega röksemdafærslan er fyrir þessu öllu?

Röksemdafærslan sem ég vísa til er að stundum tölum við hérna um að þetta sé gert af efnahagslegum ástæðum, að við höfum ekki lengur efni á að vera með þessi vörugjöld í núlli, og stundum er það vegna þess að við séum að stunda neyslustýringu. Við höfum heyrt báðar útgáfurnar hjá hv. formanni efnahags- og skattanefndar, svona eftir því hvernig áferðin er á þessu öllu saman.

Jafnframt er í frumvarpinu, þar sem fjallað er um ákvæði til bráðabirgða um svokallaðan hátekjuskatt, lagður til viðbótarskattur upp á 8% sem leggist á launatekjur yfir 700.000 kr. Það virðist vera um stefnubreytingu að ræða í skattkerfinu þar sem skatturinn er lagður á einstaklinga en ekki hjón eins og áður var. Það þýðir að hjón þar sem annar makinn er t.d. með 900.000 í mánaðarlaun og hinn 100.000 lenda í hærra skattþrepi en hjón sem eru bæði með 700.000. Þetta skapar auðvitað óæskileg jaðaráhrif í kerfinu og er hreint og beint óréttlátt.

Ég spurði út í þetta á fundi efnahags- og skattanefndar og þá var mér sagt að meginprinsippið í íslensku skattkerfi væri að einstaklingar væru skattlagðir, það væri ekki tekið tillit til hjóna, sem voru nokkuð nýjar fréttir fyrir mér, en hvað um það, ég lét kyrrt liggja. Núna er allt í einu komið inn í framhaldsnefndarálit raunverulega undirstrikun á þessu sem ég hélt að gilti, að við litum á hjón sem eina stofnun þar sem er talað um að í fjármagnstekjuskattinum skuli viðmiðunarfjárhæð, sem er 250.000, vera tvöföld hjá hjónum. Ég verð því eiginlega að segja að þessi prinsipp sem var lýst fyrir mér til að rökstyðja það að hátekjuskatturinn væri reiknaður út frá einstaklingum en ekki hjónum eru strax brotin nokkrum línum neðar. Þetta eru vinnubrögðin.

Ég geri mér grein fyrir því að það er gríðarlega mikið verkefni að ráðast í að ná tökum á ríkissjóði og þeir sem að því standa eiga alla mína samúð, það eru erfiðar ákvarðanir sem þarf að taka. Menn greinir hugmyndafræðilega á um hvernig eigi að gera hlutina og jafnvel vilja sumir hugsa meira í heildaráhrifum en aðrir en það er eins og gengur og ekkert við því að segja. Aftur á móti vil ég segja um 6. gr. frumvarpsins sem fjallar um skattlagningu á vaxtatekjum og fjármálagjörningum sem erlendir aðilar eru með hérna á Íslandi að ég get ekki með nokkru móti séð annað en að hér sé verið að gera reginskyssu. Öll þau rök sem okkur hafa verið gefin í efnahags- og skattanefnd fyrir þessari skattlagningu virðast ekki eiga sér stoð í raunveruleikanum. Við erum með dæmi frá orkufyrirtækjunum, sem eru opinber fyrirtæki, um hvernig þetta muni t.d. snerta þau, að þetta mun hækka fjármögnunarkostnað þeirra. Þetta mun útiloka fjármögnunaraðila erlendis frá því að eiga viðskipti við Ísland og jafnvel tala fyrirtæki um að það sé hætta á að lánasamningum verði sagt upp í kjölfarið.

Hvað um það, þetta eru allt saman gríðarlega mikil rök á móti málinu en ef það væru regluleg rök með málinu, ef okkur væri t.d. sagt frá því þótt ekki væri nema á að giska hvaða tekjur þetta gæti skapað ríkinu liði manni kannski betur. Það er hins vegar á engan hátt reynt að leggja mat á hvaða tekjur þetta skapar og sagt að það sé mjög óvíst.

Síðan er reynt að róa mann með því að segja að sett verði reglugerð og að hún komi inn í efnahags- og skattanefnd og þar verði útfærsla á málinu þar sem það verði nákvæmara hvað eigi að gera og hvernig eigi að gera það og annað slíkt. Ég er ekki sannfærður, sérstaklega ekki eftir þessi vinnubrögð sem ég vil taka fram að eru ekki frá meiri hluta efnahags- og skattanefndar, heldur virðist þetta vera komið einhvers staðar annars staðar að.

Að lokum vil ég segja að ef markmiðið með 6. gr. — sem ég vara enn og aftur eindregið við — er að loka fyrir skattundanskot er rétt að benda á að íslensk skattyfirvöld hafa nú þegar heimildir til að líta fram hjá viðskiptum sem fela í sér skattsniðgöngu. Jafnframt hlýtur það að verða, miðað við andann sem ríkir í þjóðfélaginu og það sem hefur gerst hérna undanfarna mánuði, eitt af verkefnum þingsins að koma einhvers konar löggjöf utan um þau lönd sem gefa færi á þessari skattsniðgöngu, hvort sem það heitir Tortóla eða Cayman Islands eða Jersey eða Guernsey eða hvað þessi lönd heita öllsömul. Ég hefði haldið að þar sem ekki er reiknað með neinum tekjum af þessu, það er algjörlega óvíst hverju þetta skilar, fyrirtækin eru skelkuð yfir þessu, þau eru hrædd um að bæði hækki fjármögnunarkostnaður og jafnvel að lánasamningum verði sagt upp, væru þessi viðvörunarorð öllsömul nægjanlega sterk til að umræða um þetta og rannsókn á málinu mundi færast þegar við þurfum að taka á hinu málinu, sem ég efast ekki um að valdhafarnir muni gera á næstunni vegna þess að nóg er talað um þessi mál.