137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Ásmundur Einar Daðason (Vg):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir að vekja athygli á þessu máli og bera það upp. Sparisjóðirnir eru eitt af því sem Vinstri græn hafa ávallt lagt mikla áherslu á, það er alveg hárrétt. Við höfum varað við því á hvaða vegferð þeir hafa verið, við höfum flutt frumvarp í þinginu til þess að reyna að sporna við því sem þar var í gangi. Hv. þingmaður þarf ekki að uppfræða mig um hvernig nágrannar mínir í Strandasýslu og Húnavatnssýslu fóru út úr þessu. Það er alveg hárrétt, þarna eru margir aðilar sem standa mjög illa (Gripið fram í.) hvað þetta snertir.

Varðandi lækkun stofnfjár er einfaldlega verið að framfylgja neyðarlögunum. Í neyðarlögunum kemur skýrt fram að ekki er heimilt að leggja sparisjóðunum til 20% aukafjárveitingu nema stofnféð sé lækkað niður í raunvirði. Það er staðreynd, undir það hefur verið tekið, eins og hv. þm. Eygló Harðardóttir þekkir, enda situr hún í nefndinni sem hefur málið til umfjöllunar. Það hafa forsvarsmenn Sambands íslenskra sparisjóða bent á, það hefur Seðlabankinn bent á, það kemur skýrt fram í neyðarlögunum, svo grátlegt sem það er. Það þekkir hv. þingmaður og það þekki ég líka úr mínu héraði og hjá nágrönnum mínum.