137. löggjafarþing — 30. fundur,  30. júní 2009.

skýrsla fjármálaráðherra um áætlun um jöfnuð í ríkisfjármálum 2009--2013.

126. mál
[14:55]
Horfa

Höskuldur Þórhallsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar í fyrsta lagi aðeins að koma inn á orð hæstv. fjármálaráðherra þar sem hann talaði um að hér hefði verið stunduð óábyrg útþenslustefna stjórnvalda og beindi orðum sínum að Sjálfstæðisflokknum. Ég veit ekki betur en að samstarfsflokkur Vinstri grænna í ríkisstjórn, Samfylkingin, hafi staðið fyrir 20% útgjaldaaukningu þegar hún kom til valda 2007 þrátt fyrir viðvaranir um annað og að hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og samflokksmenn hans mæltu þá á annan veg en við framsóknarmenn um að þetta gengi ekki. Þeir vildu auka enn frekar. Við skulum því gæta fyllstu sanngirni í þessu.

Ég vildi spyrja og ég veit að tíminn er að verða útrunninn: Af hverju fáum við ekki heildarmyndina í þessari skýrslu í staðinn fyrir að skilja eftir skuldbindingar varðandi Icesave, lán frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Noregi (Forseti hringir.) jafnvel þó að þau séu til Seðlabankans? Þurfum við ekki að fara að fá heildarmyndina? Við erum alltaf að standa frammi fyrir því að tölurnar (Forseti hringir.) breytast dag frá degi.