137. löggjafarþing — 33. fundur,  2. júlí 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[21:33]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil lýsa yfir verulegum áhyggjum af því viðveruleysi stjórnmálaflokksins Samfylkingarinnar. Ég trúi ekki öðru en að hér hljóti að fara að birtast einhver kunnugleg andlit úr þeim flokki til þess að mæta til þessarar umræðu. Það var alveg sama hversu oft ég innti hæstv. forsætisráðherra í dag eftir svörum varðandi 3.600 millj. kr. niðurskurð hjá eldri borgurum og öryrkjum, sem var eitt fyrsta verkefni þessarar stjórnar, 1.300 millj. kr. niðurskurður til nema við Háskóla Íslands. — Bíddu, voru þetta ekki hóparnir sem Samfylkingin ætlaði að standa vörð um í aðdraganda síðustu kosninga? Hvað breyttist á örfáum vikum?

Ég verð að segja það, frú forseti, að ég hef áhyggjur af því að það er enginn baráttuandi sem einkennir forustu þessarar ríkisstjórnar. Hvar er sá eldmóður, hvar er sá baráttuandi sem ætti að einkenna forustumenn ríkisstjórnarinnar á tímum sem þessum? Og horfi ég nú hér á hæstv. fjármálaráðherra sem ég veit að á eftir að halda eina snjalla ræðu hér í lokin til þess að reyna að verja þann ósóma sem við höfum verið að ræða hér. Ég hef áhyggjur af því. Við þurfum núna á stjórnmálamönnum að halda sem þora í umræðuna.

Hæstv. forsætisráðherra hefur ekki kvatt sér hljóðs í þessari umræðu þegar verið er að leggja einar stærstu byrðar á hendur íslenskri þjóð sem nokkurn tímann hafa verið lagðar. Hvar er nú leiðtogi ríkisstjórnarinnar? Hvar er sú sem ætlaði að láta verkin tala? (Gripið fram í: Verkstjórinn.) Verkstjórinn sjálfur, sem hefur verið hvött ítrekað til þess að koma með a.m.k. nokkur orð inn í þessa umræðu. (Gripið fram í.) Það er með ólíkindum það virðingarleysi sem Samfylkingin hefur sýnt þessari umræðu og íslenskum almenningi og mér finnst miður að flokksmenn hennar skuli ekki láta sjá sig í þessum sal (Forseti hringir.) sem eru einir aðalgerendurnir í þessu máli.