137. löggjafarþing — 36. fundur,  9. júlí 2009.

endurskipulagning rekstrarhæfra atvinnufyrirtækja.

1. mál
[19:03]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Varðandi þetta síðasta, um eigendastefnuna, er það svipað og að sigla skipi án þess að hafa kompás eða eitthvað slíkt. Maður veit í rauninni ekki hvert maður er að fara og ég ætla ekki að svara því neitt frekar.

Ég hef áhyggjur af mörgu öðru en bara lánveitingum því að þetta fyrirtæki mun selja fyrirtæki. Segjum að það fari ekki að þeim gagnsæisreglum sem eiga að vera í gildi af því að það heyrir undir einhverja stjórn sem skipuð var einhvern tíma af fjármálaráðherra sem þá var og það selji fyrirtækin bara ákveðnum aðilum, t.d. flokksgæðingum einhvers flokks. Þá gerist það að menn fá ekki lengur vinnu á Íslandi nema að vera í réttum flokki.

Þegar ég var yngri kynntist ég afskaplega slæmum afleiðingum af svona fyrirbæri og ég er dálítið uggandi yfir því, sérstaklega þegar gjaldeyrishöftin koma. Þá fá sumir gjaldeyri og aðrir ekki, sumir geta keypt jeppa og aðrir ekki og menn fara að selja leyfin til þess að fá að kaupa bíla, selja leyfin til að fara til útlanda. Þetta er allt saman mjög uggvænlegt og þess vegna er ég dálítið hugsi yfir þessari síðustu breytingu að setja megi þetta undir Bankasýslu ríkisins vegna þess að það eru engin viðurlög við því hvað gerist ef þessi lög eru þverbrotin, ef menn selja vinum og vandamönnum fyrirtækin, ef menn breyta allri hugsuninni í dæminu og gefa ekki þær upplýsingar sem á að gefa eða gefa þunnar upplýsingar. Þetta er orðið mjög (Forseti hringir.) pólitískt og getur orðið hættulegt.