137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[14:42]
Horfa

Björgvin G. Sigurðsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held að sjaldan í nokkru samfélagi sem sótt hefur um aðild að Evrópusambandinu hafi skapast jafnbreið samstaða og gerst hefur á Íslandi á liðnum mánuðum. Grein í Morgunblaðinu um liðna helgi frá forustumönnum í verkalýðshreyfingu og Samtökum atvinnurekanda vitnar þar mjög skýrt um, stefnumörkun Framsóknarflokksins á febrúarflokksþinginu, viðhorf margra þekktra sjálfstæðismanna í þessu máli og þó að flokkurinn hafi ekki þessa afdráttarlausu afstöðu sjálfur hefur skapast mjög breið afstaða hér á landi og núna reynir á hvort það er meiri hluti fyrir því í þinginu eða ekki. Ég held að farvegurinn gæti ekki verið heppilegri en akkúrat er uppi núna.

Auk þess tókum við og mörkuðum okkur þessa afdráttarlausu stefnu fyrir 15 árum þegar við gerðumst með þeim hætti sem uppi er núna í gegnum EES-samninginn aðili að Evrópusambandinu í gegnum þá aukaaðild sem það svo sannarlega er með sínum mikla lýðræðishalla, með sínum miklu ágöllum sem við höfum engin eða allt of lítil áhrif á eins og þingmaðurinn vék svo prýðilega og skynsamlega að í sinni ræðu. Þess vegna held ég að það hljóti (Forseti hringir.) að vera samstaða um það núna að reynt sé á það með samningi hvort við eigum að ganga inn og þjóðin kjósi svo um hann.