137. löggjafarþing — 38. fundur,  10. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[19:59]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég held ekki að það sé meiri hluti fyrir þessari tilteknu lausn sem hv. þingmaður talar um. En það kemur bara í ljós og þá verða menn að vinna úr þeirri stöðu sem þá kann að koma upp. Ég get ekki fullyrt um það en ég held að svo sé ekki.

Að því er varðar þessi samskipti þess þingmanns sem nú er í heyskap að því er hv. þm. Pétur H. Blöndal upplýsir við framkvæmdarvaldið þá vil ég bara segja að ég minnist þess ekki að hafa talað við þann ágæta þingmann sem mér er að öðru leyti hlýtt til í viku eða tíu daga. Ég hef hitt hann hér á göngum. Ég hef aldrei á ævinni hringt í hann, aldrei reynt að kúga hann eða berja hann til einhverra pólitískra ásta.

Svo spyr hv. þingmaður mig hvað ég haldi að þeir segi í Brussel yfir ræðu hæstv. fjármálaráðherra. Við því hef ég bara eitt svar. Það eru fordæmi fyrir því úr öðrum löndum að ráðherrar, meira að segja þungavigtarráðherrar, hafi frá upphafi til enda ferlis verið andsnúnir því að viðkomandi þjóð gengi í Evrópusambandið.