137. löggjafarþing — 42. fundur,  13. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:26]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég ætla að trufla þessar trúarjátningar Evrópusinnanna sem hér hafa heyrst undanfarið, 3–4 ræður, og spyrja hv. þingmann. Hann var eitthvað óhress yfir flokksþingi framsóknarmanna og var að lýsa því í hörgul. Ég hlustaði ekki mikið á það en hann sagði að við hefðum ekki lent í bankahruninu ef við hefðum verið í Evrópusambandinu. Hvað í ósköpunum (SF: Hvað segirðu?) — nú, þá þarf ég að fara í gegnum ræðuna betur, ég skildi það svo.

Hins vegar sagði hann að Icesave kæmi Evrópusambandinu ekkert við og umsjónin þar að. Kannast hv. þingmaður ekkert við að við fengum ekki fyrirgreiðslu í haust frá Alþjóðagjaldeyrissjóðnum nema með töfum, að flestir töldu vegna Icesave-deilunnar, og líka að Evrópusambandið hafi rætt við fjármálaráðherra okkar um lausn á Icesave-deilunni? Þannig að Evrópusambandið sjálft stóð með Hollendingum og Bretum gegn Íslendingum í þessari deilu.

Svo vil ég spyrja hv. þingmann, þar sem hann vill fara yfir í styrkjafræði og að landbúnaðurinn njóti styrkjakerfis út af einhverjum vesaldómi, sem heimskautalandbúnaður, hvort hann sjái ekki ef hann lítur til lengri tíma, svona 60 ára — Evrópusambandið er mjög ungt, evran er ekki nema 7–8 ára — hvort hann sjái ekki ef hann lítur á söguna frá 1918 að íslenskt efnahagslíf hefur stórbatnað. Íslendingar hafa breyst úr því að vera fátækasta þjóð í Evrópu í að vera ein sú ríkasta, jafnvel eftir hrun. Hvort hann sjái einhverja ástæðu til að ganga í þetta samband yfirleitt og hver sú ástæða sé. Ég hef ekki heyrt enn þá hver hún er og hvort hann muni sætta sig við það að fá tímabundnar undanþágur eða geri kröfu um varanlegar undanþágur fyrir sjávarútveginn.