137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:17]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hæstv. menntamálaráðherra fyrir ræðuna. Hún flutti hana vel og hún var mjög athyglisverð sérstaklega í ljósi þess þegar maður heyrir það hvað hún er sannarlega á móti Evrópusambandinu og finnur því nánast allt til foráttu. Þess vegna er þetta örugglega afar einkennileg staða að þurfa að standa sem aðili að ríkisstjórninni og þurfa að standa samt fyrir máli sínu á hinu háa Alþingi. Eins og ég benti á áðan er megnið af samfylkingarfólki ekki á staðnum þannig að þetta er mjög einkennilegt.

Það sem ég hef líka áhyggjur af er kostnaðurinn eins og kom fram hjá hv. þingmanni áðan. Finnst hæstv. menntamálaráðherra það forsvaranlegt á meðan heimili og fjölskyldur brenna í landinu, fólk er fullt af angist og örvæntingu hvernig það eigi fyrir næstu afborgunum og jafnvel salti í grautinn, þeir verst stöddu, finnst ráðherranum réttlætanlegt að fara í þessar rándýru viðræður á meðan staðan er svona?