137. löggjafarþing — 43. fundur,  14. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[22:04]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Guðlaugur Þór fór yfir vítt og mikið svið í sinni ræðu. Hann kom við bæði hjá hæstv. utanríkisráðherra sem ritstjóra á Þjóðviljanum og hjá þeim Goscinny og Uderzo sem skrifuðu Ástrík. Ég sé ekki alveg fyrir mér — því miður er hæstv. utanríkisráðherra farinn, held ég, — en ef maður lygnir aftur augunum og veltir því fyrir sér þá sér maður hinn glaðhlakkalega ráðherra einhvern veginn frekar sem Gaulverjaforingja en innan Evrópusambandsins. Þessi mynd sem hv. þingmaður dró upp kveikti á ákveðnum hugsunum hjá manni. Ég held einmitt að þetta sé ágætis myndlíking. Við erum að fást við stórt veldi sem er að verða til og ætlar sér að ná okkur inn til sín hvað sem það kostar út af ákveðnum hlutum, þ.e. náttúruauðlindum, en Gaulverjarnir áttu galdradrykk, ef ég man rétt, og öll meðul eru notuð til þess.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, ég hef spurt fleiri þingmenn að þessu, hvort hann sé þeirrar skoðunar að Evrópusambandið tengi beint svokallað Icesave-samkomulag, og þær fjárveitingar til landsins sem virðast hanga á því, og aðildarumsóknina sem nú er verið að fjalla um. Hvort þarna sé samfella, Icesave-samkomulagið og umsókn í Evrópusambandið, og hvort verið geti að Evrópusambandið sé hreinlega að kvelja þessa litlu þjóð til þess að greiða aðildarumsókninni atkvæði í von um að fá einhvers konar sérmeðferð inn í Evrópusambandið.