137. löggjafarþing — 44. fundur,  15. júlí 2009.

aðildarumsókn að Evrópusambandinu.

38. mál
[17:18]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Ég ætla að halda áfram frá síðustu ræðu minni að reifa þetta mál sem erum búin að ræða hér í nokkra daga og byrja á að taka fyrir lagatúlkun sem kom fyrst frá hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur og er mjög athyglisverð. Nú hafa þingmenn svarið eið að þessari stjórnarskrá, eins og hún er hér, og engri annarri, ekki breyttri eða neitt slíkt.

Hér er verið að leggja til, frú forseti, svo að ég hafi það nú alveg á tæru í nefndaráliti — segjum að þetta verði samþykkt, þetta nefndarálit meiri hluta hv. utanríkismálanefndar þar sem segir, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að leggja inn umsókn um aðild Íslands að ESB og að loknum viðræðum við sambandið verði haldin þjóðaratkvæðagreiðsla um væntanlegan aðildarsamning.“

Þarna er verið að fela ríkisstjórninni að sækja um aðild að Evrópusambandinu sem stjórnarskráin bannar. Ég fæ ekki séð hvernig í ósköpunum það stenst. Það er ekki þinglegt. Þingmenn hafa svarið eið að þessari stjórnarskrá, ekki einhverri breyttri. Ég man þá tíð að margir þingmenn, sérstaklega Vinstri grænna og Samfylkingarinnar, voru alveg miður sín þegar kom í ljós í úrskurði Hæstaréttar að lög brutu stjórnarskrána. Það voru reyndar fleiri, líka stjórnarsinnar á þeim tíma. Eða þá í kvótamálinu. Þá einsettu menn sér að breyta lögunum eins hratt og hægt var, lögum sem meiddu stjórnarskrána, sem menn höfðu svarið eið að. Hér eru menn ekki bara að reyna að laga eitthvað heldur eru þeir að flytja þingsályktunartillögu, þeir skora á ríkisstjórnina að gera eitthvað sem stjórnarskráin bannar. Ég geri miklar athugasemdir við þetta vegna þess að aðild að Evrópusambandinu þýðir afsal og framsal á fullveldi og sjálfstæði þjóðarinnar. Við erum ekki lengur fullvalda og sjálfstæð þjóð, ekki frekar en Danir eru fullvalda og sjálfstæð þjóð. Þeir eru það ekki. Þeir geta ekki gert samninga við erlend ríki eins og Taívan eða hvaða annað ríki sem er utan Evrópusambandsins. Um þann þáttinn sér Evrópusambandið. Þess vegna hef ég sagt að það að sækja um aðild að Evrópusambandinu sé heimóttarstefna en ekki alþjóðastefna.

Ég ætla svo að ræða þá stöðu sem við Íslendingar erum í núna. Við urðum fyrir gífurlegu áfalli í haust, sem kunnugt er, þegar bankarnir hrundu og segja má að þjóðin sé á margan hátt á hnjánum. Hún er mjög illa sett. Við erum hér að ræða á Alþingi um svokallaðan Icesave-samning þar sem Evrópusambandið aðstoðaði Breta og Hollendinga í baráttunni við Íslendinga og beitti sér — Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn sömuleiðis — til að kúga Íslendinga og keyra þá niður á hnén. Þar eru Íslendingar núna. Þeir eru á hnjánum. Þjóðin varð fyrir andlegu áfalli. Hún fylltist vonleysi og fjöldi einstaklinga á Íslandi á um mjög sárt að binda. Atvinnuleysi, sem við þekkjum ekki eða höfum ekki þekkt í þessum mæli, gjaldþrot fyrirtækja og einstaklinga eru staðreynd. Í þessari stöðu ætla menn virkilega að fara að sækja um aðild að þessum klúbbi.

Frú forseti. Ég er eiginlega alveg gáttaður á þeim sem láta sér detta þetta í hug. Ég er gáttaður á hv. þingmönnum Samfylkingarinnar sem vilja, sumir hverjir, nota þessa stöðu til að keyra okkur inn í sambandið, nota stöðuna. Þessa stöðu, ef við verðum ekki látin bera allt of þungar byrðar af Icesave, getum við lagað á þremur til fjórum árum. Þá skulum við full sjálfstrausts ganga inn í Evrópusambandið, þeir sem það vilja, en ekki á hnjánum. Við skulum fara inn um aðaldyrnar en ekki inn um bakdyrnar eða hundalúguna, frú forseti.

Það hefur margt undarlegt gerst undanfarna daga, undanfarnar vikur. Fyrst gerist það að þingflokkar stjórnarliða samþykkja að veita fjármálaráðherra eða ríkisstjórninni heimild til að skrifa undir samning sem þeir aldrei höfðu séð og höfðu ekki hugmynd um hvað stóð í. Svo gerist það að það var meiningin að Alþingi samþykkti Icesave-skuldbindinguna án þess að vita hvað væri í henni. Það átti virkilega að halda þessu leyndu. Leyndarhyggjan gengur svo langt að það er alltaf að koma upp meira og meira. Það þarf virkilega að grafa málin upp til að menn fái að vita hvað er á bak við þennan samning sem og fleiri. Það er sem sagt leynd, hótanir og loforð. Stjórnmálin á Íslandi, hjá hæstv. ríkisstjórn, ganga út á þetta.

Þessi umræða sem nú hefur staðið í marga daga hófst á því að ungur hv. þingmaður, Ásmundur Einar Daðason, lýsti því yfir að honum hefði borist til eyrna að það yrðu stjórnarslit ef hann gerði svo mikið að gerast meðflutningsmaður að breytingartillögu. Nú er það þannig að ríkisstjórnir þurfa á stuðningi stjórnarflokkanna að halda og þá aðallega á þann veg, eins og ég hef alltaf skilið það, að einhver maður styður ríkisstjórn — ég vildi gjarnan að hv. þm. Ásmundur Einar Daðason hlýddi á mál mitt — stuðningur við ríkisstjórn felst í því að verja hana vantrausti og styðja fjárlagafrumvarpið. Þannig hafa menn skilið stuðning við ríkisstjórn. Ég hef stutt ríkisstjórnir lengi og hef ekki skirrst við að greiða atkvæði gegn því sem mér finnst vera vitleysa, eins og ríkisábyrgð á DeCode eða eitthvað því um líkt, þó það hafi verið stjórnarfrumvarp. Ég sé því ekki að þarna sé neinn trúnaður brotinn í því að styðja ríkisstjórn. Ég skil því ekki hvers vegna hv. þm. Ásmundur Einar Daðason mátti ekki flytja breytingartillögu um að fara aðra leið í nálgun við Evrópusambandið.

En þetta er hluti af þeim veruleika sem við upplifum á Íslandi í dag, að ríkisstjórnin byggir á dulúð, leynd, loforðum, hótunum og þrýstingi og svo er ríkisstjórnin alltaf að gera eitthvað annað en hún ætti að vera að gera. Heimilin og fyrirtækin, bankakerfið er allt í standandi vandræðum. Á meðan er ríkisstjórnin alltaf að gera eitthvað annað. Hún tekur ekki á vandamálunum. Og nú ræðum við hér dag og nótt aðild að Evrópusambandinu sem leysir engan vanda til skamms tíma og kostar mikla orku og mun binda bæði ráðuneyti og fé í mörg ár í stað þess að sinna fyrirtækjum og einstaklingum, heimilum í landinu sem eru í miklum vanda, þ.e. sum hver.

Ég hef áður farið yfir sögu Íslands og Evrópusambandsins, langa sögu Íslands og stutta og mjög viðburðaríka sögu Evrópusambandsins. Hún er ótrúlega stutt og það eru gífurlegar breytingar þar í gangi. Á hverju einasta ári gerist eitthvað stórkostlegt og allt miðar það meira og minna að því að þróa Evrópusambandið til eins ríkis. Ef maður horfir á þetta með gleraugum áratuganna en ekki ársins, mánaðanna, viknanna eða klukkutímanna þá sér maður að eftir 20, 30 eða 60 ár verður Evrópusambandið orðið pikkfast ríki með sama hraða og áframhaldi. Og þangað ætla menn að stefna.

Evrópusambandið er fyrirbæri sem býr til tollmúra og lokar fátæka fólkið úti. Það er þannig. Það setur tolla á vörur frá þriðja heims löndum og býr til fátækt með þeim hætti, viðheldur sem sagt velsæld innan borðs, innan landamæra. Þannig er það. Þetta þurfa menn að hafa í huga og vita að aðild að Evrópusambandinu þýðir heimóttarstefna og þýðir að menn eru ekki lengur gjaldgengir á alþjóðamarkaði og alþjóðasviði. Menn eru ekki lengur í nefndum sem ræða frjálst eins og hvert annað ríki heldur erum við orðin hjálenda eða hlutaríki, fylki eða hreppur, í risastóru ríki og það mun fara vaxandi.

Sumir hafa sagt: Þetta er nú bara umsókn. Við skulum aðeins kíkja á hvað er í pokanum. Það er bara eins og krakki sem fer út í nammibúð, ætlar að kaupa bland í poka og vill fá að sjá hvað er í pokanum og þá ætlar hann að taka ákvörðun um hvort hann kaupi eða ekki. Þetta er afskaplega billega sagt og þeir sem þetta segja átta sig ekki á áróðursmaskínu Evrópusambandsins. Eins og hér hefur komið fram, meðal annars hjá umræddum hv. þingmanni, Ásmundi Einari Daðasyni, eyðir Evrópusambandið svipuðum upphæðum í markaðssetningu og áróðursstarf og Coca Cola á ári, og það mun vera svona svipuð tala og við erum að glíma við í Icesave-málinu á ári. (Gripið fram í.) Hér er því verið að tala um gífurlegar upphæðir, fyrir utan allt það sem Evrópusambandið er með í sameiginlegum verkefnum í rannsóknum og svo framvegis.

Evrópusambandið er mjög öflugt. Við sjáum það á Íslandi. Hér hefur verið dreginn fram í fjölmiðlana hver „óháður“ umsagnaraðilinn á fætur öðrum, fólk sem í raun er á launum hjá Evrópusambandinu í gegnum rannsóknarverkefni og rannsóknarstyrki. Þetta er því mjög hættulegt og það hefur sýnt sig í sumum löndum að þegar greiða á atkvæði um Evrópusambandið þá magnast áróðursvélin í því landi á þeim tíma, rétt fyrir kosningar, og breytir skoðanamyndun í landinu. Það getur vel verið að menn treysti á einstaklinginn og sem betur fer til dæmis tókst það ekki í Noregi. Þrátt fyrir að bæði atvinnulíf og verkalýðshreyfing og margir málsmetandi óháðir ráðgjafar stæðu að því að lofa Evrópusambandið þá stóð hinn venjulegi Norðmaður gegn þessu. En það er spurning hvort hann stendur gegn því á Íslandi því að hér hefur hann ekki atkvæðisrétt, þessi ágæti Norðmaður, og ég er ekki alveg viss um Íslendinginn vegna þess að hann hugsar oft mikið til skamms tíma.

Ef það kemur einhver samningur til baka, þegar hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson, sem elskar og dáir Evrópusambandið, kemur til baka með einhvern samning eftir að hafa haft eins lítil samskipti við hv. utanríkismálanefnd og hægt er, því að hann á jú bara að taka tillit sjónarmiða. Það stendur í breytingartillögunni, með leyfi frú forseta:

„Við undirbúning viðræðna og skipulag þeirra skal ríkisstjórnin fylgja þeim sjónarmiðum um verklag og meginhagsmuni sem fram koma í áliti meiri hluta utanríkismálanefndar.“

Hann á því ekki einu sinni að fara eftir þeim. Hann á að fylgja þeim sjónarmiðum, hvað sem það nú þýðir. Svo gerir hann einhvern samning og kemur til baka með einhvern samning og í þeim samningi fáum við undanþágu fyrir sjávarútveg. Það er ekki spurning. Við fáum undanþágur til að veiða fisk tímabundið. En það verður svo langur tími að Íslendingnum finnst það nánast vera eilífð. Ég geri ráð fyrir að það verði 20 ár, að við megum veiða þorsk einir í 20 ár. Og við megum borða hákarl, sem er skemmdur matur í Evrópusambandinu, í kannski 15 ár. Og Vestfirðingar — af því að ég sé nú einn þarna — þeir mega borða hnoðmör á laun ef þeir lofa að segja engum frá því og gera það einhvers staðar inn til dala. (Gripið fram í: Blóta á laun.) Undanþágurnar verða tímabundnar og Íslendingurinn sem hugsar alltaf í vikum og mánuðum, kannski árum eða kannski fimm árum — maður sér það bara í þessari umræðu um Evrópusambandið. Það er enginn að tala um 15, 20 eða 30 ár — hann mun væntanlega hlaupa á þetta. Svo eftir 20 ár kemur Evrópusambandið og sendir hingað skoska togara, hollenska, spænska og svo framvegis. Þá munu Íslendingar fatta að, ja, 20 árin koma líka einhvern tíma. Við erum nefnilega að tala um kynslóðir eins og hv. þm. Guðfríður Lilja Grétarsdóttir kom svo vel inn á. Við erum að tala um kynslóðir. Við erum að tala um svipaðan samning og gerður var 1262, með svipuðum áhrifum. Það er nefnilega þannig með þennan samning.

Svo þegar samningurinn verður lagður undir þjóðaratkvæðagreiðslu, þessa ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu, þá heyrist gamli söngurinn: „Staðan er orðin svo svakalega slæm. Ef þið ekki samþykkið þá gerist þetta og hitt. Alveg skelfilegt, aumingja þið. (Gripið fram í.) En ef þið samþykkið þá fáið þið þetta: Lágt verðlag, enga verðbólgu, enga verðtryggingu og svo framvegis.“ Og allir verða mjög kátir og glaðir og samþykkja. Svo líða 20 árin og þá er þetta búið.

Mig langar dálítið, frú forseti, að ræða um ábyrgð hv. þingmanna Vinstri grænna því að þeir eru hérna nokkrir. Þeir eru tveir alla vega sem ég ætla að ræða um í þessu sambandi. Ég ætla ekki að tala um ábyrgð Samfylkingarinnar því að þetta er bara trúaratriði hjá þeim og þeir ræða aldrei um kosti eða galla, bara kosti.

Vinstri grænir lofuðu kjósendum sínum að þeir gengju ekki í Evrópusambandið og margir þeirra munu greiða atkvæði á eftir, þ.e. talað er um að einhverjir fimm, sex muni greiða atkvæði með tillögu um að setja þetta í tvöfalda þjóðaratkvæðagreiðslu, aðrir muni greiða atkvæði gegn því og sú tillaga hugsanlega fellur. Þá kemur tillagan sjálf sem um er að ræða frá ríkisstjórninni með breytingartillögu hv. utanríkismálanefndar. Þá munu fleiri Vinstri grænir greiða atkvæði gegn. En þá koma þingmenn frá Framsókn og Sjálfstæðisflokki, hugsanlega einhverjir, og styðja. Málið fer því þannig að hæstv. utanríkisráðherra flýgur til Brussel fyrir helgi með lítið blað sem er umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Ég verð að segja það að ábyrgð hv. þingmanna Vinstri grænna er gífurlega mikil.

Einu sinni sátu Grikkir um Tróju og varð ekkert ágengt vegna þess að múrarnir voru svo háir. Það er svipað og á Íslandi. Landvættirnar standa vörð um Ísland og Vinstri grænir eru fyrir innan og passa að óvinurinn komi ekki inn. En Grikkir voru sniðugir. Þeir byggðu hest mikinn úr tré og fólu hermenn sína inni í hestinum — það er Samfylkingin háttvirt — og svo sigldu þeir burt. Trójumenn héldu að nú væri friður kominn og horfðu á þessa undarlegu skepnu sem stóð þarna, tréhestinn, og ákváðu að draga hann inn fyrir múrana. Þar spruttu Grikkirnir út og lögðu undir sig borgina og var það mikill skaði fyrir Trójumenn.

Ég tel því miður, frú forseti, að hv. þingmenn Vinstri grænna séu í hlutverki þeirra sem draga Trójuhestinn inn í borgina. Þeir meina ekkert illt með því en þannig verður niðurstaðan, frú forseti. Svo verður sótt um og svo, eins og ég er búinn að lýsa, kemur áróðursmaskínan og eftir tíu ár er Ísland allt í einu orðið — eða jafnvel fyrr, innan tíu ára — er Ísland orðið aðildarríki Evrópusambandsins. Ég tel þetta mjög raunhæft. Ég tel að líkurnar séu töluvert miklar. Þeir hv. þingmenn Vinstri grænna sem að þessu standa — ég veit ekki hverjir það eru. Sumir hafa lýst mjög eindreginni andstöðu við það hvort tveggja en aðrir ekki. Ég nefni sérstaklega hv. þm. Árna Þór Sigurðsson, formann utanríkismálanefndar, sem er búinn að búa til hérna yndislega fallega tillögu og ég hef spurt nokkrum sinnum um sannfæringu hans í málinu og ég fæ hana ekki upp. Mér sýnist sannfæringin vera helst sú að fá fram samning svo að þjóðin geti greitt atkvæði um hann og þá ætlar hann að greiða atkvæði eins og þjóðin. En hvað hann sjálfur vill, það veit ég ekki enn þá.

Þetta er stórhættulegt og í því sambandi talaði ég um lýðtoga og leiðtoga. Leiðtogi er sá sem leiðir þjóð sína áfram. En lýðtogi er sá sem lýðurinn togar áfram með skoðanakönnunum og áróðri og svo framvegis.

Ég kemst því miður ekki lengra. Ég ætlaði rétt aðeins að lesa bréf frá Jóni Sigurðssyni nokkrum sem skrifaði það 1849. Það er orðið dálítið gamalt í hettunni en á mjög vel við í dag. En ég kemst bara ekki yfir það í þessum ræðustúf og kem inn á það seinna.