137. löggjafarþing — 49. fundur,  11. ág. 2009.

kosning yfirkjörstjórnar Norðvesturkjördæmis.

[14:10]
Horfa

Birgitta Jónsdóttir (Bhr) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Borgarahreyfingin mótmælir því að hér sé kosið í yfirkjörstjórnir með pólitískum hætti og af pólitískum meiri hluta þingsins. Það er lágmarkskrafa lýðræðisins að hver þingflokkur eigi a.m.k. einn fulltrúa í hverri yfirkjörstjórn og að í aðdraganda hverra kosninga sé nýjum framboðum einnig gert kleift að koma að borðinu.

Í aðdraganda síðustu kosninga var framboð Borgarahreyfingarinnar stöðvað af yfirkjörstjórnum í tveimur kjördæmum á mjög hæpnum forsendum og þrátt fyrir að framboðið hafi í einu og öllu fylgt tilmælum dómsmálaráðuneytisins um framboð til alþingiskosninga. Lýðræðið fékk ekki að njóta vafans. Þessu kerfi verður að breyta ef Ísland á að teljast fullgilt lýðræðisríki.

Í þessu sambandi leyfi ég mér einnig að benda á nýútkomna skýrslu ÖSE um framkvæmd kosninga í apríl sl.