137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

samráð við hagsmunaaðila um fyrningarleið.

26. mál
[14:26]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka fyrirspyrjanda fyrir fyrirspurnina og hæstv. ráðherra fyrir ágæt svör. Mig langar að lýsa aðeins því umhverfi sem sjávarútvegurinn er í. Núna er búið að boða 33% skerðingu á ýsu og 10% skerðingu á þorski og menn sjá það alveg í hendi sér ef farin væri einhver fyrningarleið ofan á það væri það nánast dauðadómur fyrir allt saman.

Ég geri hins vegar ekkert lítið úr því og tek alveg heils hugar undir að það er mjög mikilvægt fyrir okkur að vera með fiskveiðistjórnarkerfið í endurskoðun á hverjum tíma því að það þarf að ná sátt um það hér á Alþingi og meðal þjóðarinnar. Því tel ég mikilvægt að það sé gert. Ég bind ágætisvonir við vinnu þessa góða fólks sem þarna er og eftir því sem ráðherra lýsti að yrði á verksviði nefndarinnar eru þau ekki með neina útfærslu á fyrningarleiðinni heldur er markmiðið að ná ákveðinni sátt og að koma með tillögur og breytingar um hvað megi betur fara. Ég bind því ákveðnar vonir við störf þessarar nefndar.