137. löggjafarþing — 50. fundur,  12. ág. 2009.

áætlaður kostnaður við ýmis verkefni.

151. mál
[19:26]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Það er hárrétt hjá fyrirspyrjanda að við værum í öðru samhengi að ræða þessa hluti ef efnahagslífið í landinu hefði ekki hrunið í haust með skelfilegu tjóni fyrir land og þjóð. Við værum líka í öðru samhengi að ræða þetta ef við ættum 200–300 milljarða kr. innstæður í Seðlabankanum umfram það sem er, vegna þess að eðlilegri skattheimtu hefði verið haldið uppi á löngu þenslutímabili í landinu en svo er ekki. Við erum að glíma við alla þessa hluti við skelfilega erfiðar aðstæður.

Varðandi tónlistarhús, sem hv. þm. Pétur Blöndal spurði um, þá tókum við það mál í arf og það var einfaldlega mat borgar og ríkis að meira tjóni væri afstýrt með því að klára þá byggingu heldur en láta hana grotna niður hálfkaraða. Við skulum ekki gleyma að í því sambandi voru afskrifaðir einir 8 milljarðar kr. sem aðrir höfðu lagt í púkkið.

Varðandi listaverkasafnið stendur ekki til að punga út stórum fjárhæðum. Í undirbúningi er samningur milli ríkisins og nýju bankanna um að ríkið hafi aðgang að því að kaupa, ef svo ber undir á síðari stigum, þjóðargersemar sem kunna að vera svo flokkaðar í listaverkasafni bankanna að ekki er gert ráð fyrir miklum útgjöldum af þeim sökum strax í núinu.

Varðandi svör um aðra liði þá fór ég yfir að verið er að setja stóraukna fjármuni inn í vissa hluta velferðarkerfisins vegna þess að menn ætla að verja atvinnuleysistryggingakerfið án skerðinga, ætla að greiða húsaleigubætur án skerðinga og eru að stórauka vaxtabætur til að aðstoða fólk við að halda húsnæðinu við erfiðar aðstæður. Í þetta fara umtalsverðir viðbótarfjármunir og á móti því er reynt að afla tekna með hækkun tryggingagjalds, með tekjum af útgreiðslu séreignarsparnaðar o.s.frv. Ég tel að ég hafi gefið alveg skýr svör og fullnægjandi eftir því sem hægt er um þá liði sem liggja fyrir og bið engan afsökunar á því svari sem ég hef gefið samkvæmt bestu vitund og bestu fáanlegum upplýsingum.