137. löggjafarþing — 51. fundur,  13. ág. 2009.

tekjuskattur.

166. mál
[11:34]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Þetta er eiginlega spurning til hæstv. forseta, því hann stýrir fundum þingsins, um að hann gefi þessu máli svona tvær vikur. Ég tel algert lágmark að það sé unnið á tveimur vikum til að fólk úti í bæ geti myndað sér á þessu skoðun, þeir sem veita umsagnir og koma sem gestir. Þetta er því spurning til hæstv. forseta, hvort hann fresti þinginu til september. Ef okkur lánast að afgreiða Icesave-málið í sæmilegri sátt má fresta þinginu til septemberloka og þá hefur efnahags- og skattanefnd meiri tíma til að vinna þetta.

Ég vil endilega klára málið, það er ekki vandamál. Ég mun stuðla að því að það verði klárað. Ég vil þó líka átta mig fullkomlega á hvað við erum að gera þannig að við sitjum ekki allt í einu uppi með að félagslega veikir hópar á Íslandi verði fyrir barðinu á vasklegri vinnu skattyfirvalda sem vilja endilega ná í skatta af fólki sem kann ekki að telja fram. Þetta er það helsta sem ég hafði við þetta að athuga en ég er alveg til í að vinna mikið ef hæstv. forseti Alþingis gefur tíma til þess.