137. löggjafarþing — 52. fundur,  17. ág. 2009.

gjaldfellingarákvæði Icesave-samninganna.

[15:11]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Það er mikið fagnaðarefni að nú virðist orðið ljóst að Icesave-samningarnir fara ekki óbreyttir í gegnum þingið þó að það sé reyndar einhver óvissa með það enn þá hvort samningarnir sjálfir teljist óbreyttir eða ekki. Það hlýtur að skipta verulegu máli fyrir þingmenn þegar kemur að því að greiða um þetta atkvæði hvort þeir geti treyst því að fyrirvararnir sem þingið setur hafi raunverulega áhrif á innihald samninganna og afleiðingar þess innihalds.

Því vil ég til að mynda spyrja hæstv. fjármálaráðherra um hið vanefnda ákvæði samninganna. Hvað gerist ef Bretar og Hollendingar beita fyrir sig þessum vanefndaákvæðum og gjaldfella lánið í heild sinni allt í einu einhvern tímann á tímabilinu? Hvernig koma þá til þessir efnahagslegu fyrirvarar sem meiri hluti fjárlaganefndar leggur til að settir verði við þessa samninga? Getur hæstv. fjármálaráðherra útskýrt það? Það virðist vera að ef efnahagslegu fyrirvararnir eigi að gilda geti þessi vanefndaákvæði samninganna ekki gilt lengur og þar af leiðandi eru þau orðin dauð og ómerk. Er hæstv. fjármálaráðherra sammála mér um það?