137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[11:36]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir fróðlega og ágæta ræðu. Þegar búið var að skrifa undir þennan hræðilega samning sem setti Alþingi í úlfakreppu þannig að það gat hvorki samþykkt hann né fellt fóru menn að átta sig á þeirri gífurlegu áhættu sem var í þessum samningi. Gífurlegu áhættu. Það getur verið að það komi upp, það getur líka verið að það komi ekki upp en við hv. þingmenn getum ekki látið áhættu koma yfir þessa þjóð sem steypir henni í varanlega fátækt.

Þess vegna myndaðist mjög brothættur meiri hluti á Alþingi sem í voru hv. þingmenn Framsóknar, Sjálfstæðisflokks, Borgarahreyfingar og nokkrir hugrakkir þingmenn Vinstri grænna, vegna þess að þeir þingmenn voru undir miklum þrýstingi. Þessi hópur sem var með meiri hluta á Alþingi — mjög skrýtin og merkileg staða og einsdæmi að ég held — leit á þetta mál algjörlega burt séð frá flokkspólitík. Hann reyndi að finna lausnir og leiðir til þess að tryggja að ekki dyndu þau áföll á þjóðinni sem samningurinn gerði ráð fyrir. (Gripið fram í.) Það var róinn lífróður í því að fá þessa efnahagslegu fyrirvara fram og reyna að fá stjórnarmeirihluta og stjórnarþingmenn með og það tókst. En á síðustu metrunum brást Framsókn sem hafði þó unnið vel og ötullega með þessum brothætta meiri hluta í því að samþykkja efnahagslegu tillögurnar. Þeir báðu um meiri frest og ætluðu að koma með tillögur sem aldrei hafa komið o.s.frv. Nú ætla þeir að koma með frávísunartillögu en ég fullyrði að ef hún yrði samþykkt bættist stjórnmálaóreiða (Forseti hringir.) við fjármálaóreiðuna því að ríkisstjórnin yrði að fara frá.