137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[12:23]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni fyrir ræðu hans og þá vinnu sem hann og aðrir hafa lagt fram í fjárlaganefnd og utanríkismálanefnd. Mig langar að spyrja hv. þingmann, og þá kannski undirstrika það sem hann sagði áðan, hvort hann telji aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins eðlilega í þessu máli. Hvort hann muni gera einhverjar ráðstafanir til þess að koma því á framfæri við sjóðinn að þeir séu ekki að spila rétt í þessu.

Hvaða áhrif hafa fyrirvararnir, hv. þingmaður, ef allan ágreining um þetta mál þarf að leiða til lykta fyrir breskum dómstólum? Ég vil taka undir með honum með eitt, að það þarf að leiða þetta mál til lykta en það er vitanlega ekki sama hvernig það er gert. Þess vegna teljum við framsóknarmenn, og höfum haldið því á lofti eftir að ljóst var að (Forseti hringir.) fyrirvararnir yrðu ekki nægilega sterkir, að það þurfi einfaldlega að semja upp á nýtt við þessa aðila.