137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:00]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Bjarna Benediktssyni fyrir mjög góða og yfirgripsmikla ræðu. Ég er að mörgum leyti nánast alveg sammála því sem kom fram hjá honum, sérstaklega hvað varðar réttarstöðu okkar Íslendinga og þá hörku sem við urðum fyrir af hendi Breta varðandi hryðjuverkalögin og út af hverju ekki var brugðist betur við þegar þeim lögum var beitt á okkur.

Mig langar að spyrja hv. þingmann, eins og ég spurði fyrr í morgun, að sjálfstæðismenn líta á þetta sem samningstilboð, þetta sé í raun gagntilboð til Breta og Hollendinga. Breytingartillögur á frumvarpinu liggja fyrir eins og hv. þingmaður fór yfir. Upphaflega frumvarpið er í tveimur greinum en svo er komin mikil viðbót. Þar sem ríkisstjórnin lítur svo á að þetta sé viðbót við samninginn sem ekki þurfi að bera undir Hollendinga og Breta og þessir fyrirvarar rúmist innan samningsins vil ég lesa enn á ný, með leyfi forseta: „Aðeins er heimilt að gera breytingar á samningi þessum, bæta við hann eða falla frá honum með skriflegu samkomulagi milli samningsaðila.“ Eins og ég benti á í morgun að samkvæmt breskri réttarvenju er litið svo á að það eitt verði hluti af samningi sem í honum er og ekkert annað. Þar eru samningar túlkaðir eftir orðanna hljóðan. Úr því að formaður Sjálfstæðisflokksins lítur svo á að um nýtt samningstilboð sé að ræða er þá ekki hægt að jafna þessu við það að hv. þingmaður sé í raun að taka undir þá frávísunartillögu sem liggur fyrir þinginu frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni, að vísa ætti málinu frá heim til ríkisstjórnar og semja upp á nýtt við Breta?