137. löggjafarþing — 55. fundur,  20. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[15:06]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég held að við verðum að eftirláta framkvæmdarvaldinu að eiga þessi samskipti við Breta og Hollendinga. Auðvitað væri heppilegast að afstaða þeirra lægi fyrir til umræddra skilmála, þeirrar þrengingar á ríkisábyrgðinni sem við erum að fjalla um, áður en þingið afgreiðir málið.

Því má halda fram að verið sé að tefla málinu út í ákveðnar ógöngur með því að þingið taki endanlega afstöðu til málsins og síðan verði það að koma í ljós hver viðbrögðin verða. Ég held að færa megi fyrir því mjög gild rök að ríkisstjórnin hefði fyrir löngu átt að taka upp viðræður við Breta og Hollendinga. Ég hef tjáð mig um það áður, m.a. í blöðunum, að ríkisstjórnin hafi algerlega látið undir höfuð leggjast að eiga slík samskipti. Það hefði auðvitað verið hinn eðlilegi farvegur málsins að ríkisstjórnin hefði fyrir löngu horfst í augu við að það upplegg sem hún lagði fyrir þingið og var niðurstaða aðilanna í viðræðum sínum hefur ekki stuðning á þinginu. Það eru því mörg gild rök fyrir því að eiga þessar viðræður en það er erfitt að sjá fyrir um hvert framhaldið verður ef þingið afgreiðir málið með þessum hætti.