137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[10:58]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð að segja að mér fannst mjög áhugavert að hlusta á ræðu hv. þm. Péturs Blöndals um það hvernig honum hefur einhvern veginn tekist að heilaþvo sjálfan sig til þess að samþykkja samninginn. Ég verð að viðurkenna að ég var í þessari vinnu með honum og fannst þetta ansi góð hugmynd þegar hún kom fyrst fram. En eftir umræðuna í gær og þær upplýsingar sem við höfum verið að fá fram núna er ég alvarlega farin að efast um að það sé nokkurt hald í þessum fyrirvörum.

Ég mundi því gjarnan vilja heyra aðeins frá hv. þingmanni hvert hann telur vera lagalegt gildi fyrirvaranna og þá gagnvart breskum dómstólum. Eins og kemur skýrt fram í samningunum eiga ágreiningsmál varðandi samninginn að verða tekin fyrir hjá breskum dómstólum. Ég veit að viðkomandi hefur ríghaldið sig við að þetta sé gegn íslensku stjórnarskránni og það verði örugglega hægt að nota hana eitthvað fyrir breskum dómstólum. Ég mundi þá einmitt gjarnan vilja heyra frá honum hvert hann telur eiginlega lagalegt gildi íslensku stjórnarskrárinnar vera fyrir breskum dómstólum.

Ég hefði líka áhuga á að heyra frá hv. þingmanni hvernig stendur á því að forustumenn stjórnarflokkanna koma fram í fréttatíma eftir fréttatíma og segja að þeir telji að þrátt fyrir þessa fyrirvara, þrátt fyrir þeir séu búnir að setja hérna nokkur orð á blað, sé um óbreyttan samning að ræða, að fyrirvararnir rúmist mjög vel innan samninganna. Hvernig í ósköpunum getur hann haldið því fram að það sé eitthvert lagalegt gildi fyrirvaranna gagnvart breskum dómstólum?