137. löggjafarþing — 56. fundur,  21. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[20:31]
Horfa

Guðfríður Lilja Grétarsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Með misráðinni og misheppnaðri einkavæðingu bankanna í upphafi aldarinnar voru lögð drög að efnahagshruni Íslands. Það var kallað að leysa úr læðingi krafta einkaframtaksins, afhenda hinum útvöldu ævintýramönnum bankana og gera þeim kleift að hreiðra um sig sem kjölfesta íslensks fjármálalífs. Séríslensk fjármálasnilld var uppgötvuð og hafin til skýja með byr undir vængjum. Lánið lék við bankamanninn og bankamaðurinn lék við lánið. Gata hans var greidd og allir vegir voru honum færir. Út í tómarúmið fengu bankarnir að þenjast, af velgengninni leiddi vöxturinn. Hugmyndafræði auðvalds var blindandi leiðarljós, og langt út fyrir strendur landsins lagðist Íslendingurinn í víking á ný. Útsjónarsemi og snarræði voru hans helstu dyggðir, gríðarleg arðsemin réttlætti alla áhættusækni. Allt varð þeim að gulli og peningurinn streymdi til landsins. Með hendur í skauti dásömuðu stjórnarherrarnir afrek sín og spegluðu sig í tærri snilldinni.

Til voru þeir sem á góðæristímum höfðu uppi varnaðarorð. En gagnrýni átti ekki heima á Íslandi þess tíma, hún var tímaskekkja, misskilningur, uppgjafarkvein sigraðrar hugmyndafræði. Til hvers félagslegt réttlæti? Voru ekki allir að græða? Efi um skynsemi stefnunnar, arðsemi útþenslunnar, uppruna, áfangastað, eðli og inntak auðsins var kveðinn niður með háði og skömm ef ráð og dáð dugðu ekki til.

Nú þegar horft er yfir rjúkandi rústir íslensks fjármála- og efnahagslífs verður ekki annað sagt en að þeir hafi svo sannarlega staðið undir nafni, umbreytingafjárfestarnir. Ísland er ekki lengur það sem það var og verður ekki aftur í bráð. Ekki þarf að fara mörgum orðum um það hvort uppskera útrásarinnar og ofurtrúar á einkaframtakið hafi fært okkur nær heimsyfirráðum eða hnignun.

Icesave-málið sem hér er til umfjöllunar er sennilega eitt það stærsta og ósanngjarnasta sem Alþingi Íslendinga hefur þurft að takast á við. „Tær snilld“ eins banka hefur breyst í martröð heillar þjóðar. Sú saga öll er samfelld sorgarsaga, saga margfaldra mistaka sem engan farsælan endi getur átt.

Val milli vondra kosta er heiti þess kafla sem við skrifum nú. Það er við þessar hörmulegu aðstæður sem þjóðþing Íslands fær það verkefni að reyna að breyta rétt, að tefla úr þröngri stöðu þar sem þeir örfáu þvinguðu leikir sem bjóðast leiða allir til erfiðra fórna. Hámörkun ávinnings er ekki í boði, í besta falli takmörkun umfangsmikils skaða til langs tíma. Úr því sem komið er getur niðurstaðan ekki orðið betri en útúrsnúningur á frægum orðum Winstons Churchills, sjaldan hefur jafnmikið verið skuldað af jafnfáum til jafnmargra.

Það gagnrýnisleysi sem markaði aðdraganda hrunsins má ekki einkenna eftirmálin. Um það getum við öll sameinast. Við sem þjóð og þing, jafnvel undir tímapressu, verðum að geta staldrað við, efast, spurt og rýnt í álitamálin til gagns með lýðræðislegum og opnum hætti. Það er hin rétta og sanna leið að endurreisn og þjóðarsátt, að allt sé uppi á borðum, að sem breiðust samstaða ríki um úrlausnir. Og að lágmarki sé tryggður víðtækur skilningur almennings á eðli og umfangi þeirra vandasömu viðfangsefna sem við er að fást, hvaða afstöðu sem einstaklingar kunna svo að taka til einstakra mála. Án skilnings er engin samstaða og án samstöðu verður engin endurreisn. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Hvernig má það vera að skuldir fjárglæframanna lendi á herðum almennings sem stofnaði ekki til þeirra, sem ber ekki ábyrgðina á því hvernig fyrir okkur er komið? Hvað var íslensk stjórnsýsla að hugsa og gera á meðan ábyrgðarlausir fjárglæframenn létu greipar sópa? Hvað hefur farið úrskeiðis, hjá hverjum, hvernig og hvers vegna? Hvað höfum við gert til að verðskulda okkar örlög, til að skapa þau — eða til að afstýra þeim? Hefur meira hrunið í kringum okkur en eigið efnahagslíf? Fór traust og trúverðugleiki okkar hið innra jafnt sem út á við, á alþjóðavettvangi, með í fallinu? Féll líka geta og vilji alþjóðasamfélagsins og bandalagsþjóða okkar til að leysa úr ágreiningsmálum með siðmenntuðum og lögformlegum hætti? Hvað í ósköpunum varð til þess að hryðjuverkalögum var beitt gegn Íslandi, friðsælli og fámennri þjóð? Hvernig voru eiginlega samskiptin? Og samskiptaleysið? Og var þá ekki Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn fenginn til að hjálpa? Eða var hann fenginn til að hjálpa okkur — eða e.t.v. bara einhverjum allt öðrum? Er neyð okkar leyst með nauðasamningi? Eigum við einhverja valkosti?

Svona mætti lengi áfram telja.

Svo sannarlega á margt eftir að koma í ljós um aðdraganda hrunsins og eftirmála. Ég vísa þar ekki síst til starfa rannsóknarnefndar Alþingis og styrkingar á embætti sérstaks saksóknara, alþjóðlegrar sérfræðiráðgjafar og þess pólitíska vilja sem er og verður að vera til staðar til að gera hlutina upp og halda áfram.

Eitt er ófrávíkjanleg sannindi, við nálgumst hvorki skilning né samstöðu um álitamál nema með því að vinna á opinn og heiðarlegan hátt með lýðræðisleg gildi að leiðarljósi. Stjórnsýsla nýrra tíma þarf að draga sinn lærdóm af sögunni. Lykillinn að endurreisninni, lykillinn að því að ná meiri sátt í samfélaginu, snýst ekki endilega um það, og jafnvel alls ekki, að allir verði jafnríkir að efnislegum gæðum og þeir hafa verið í gróðærinu. Við getum vel orðið dálítið fátækari og samt verið sátt. Sáttin snýst núna miklu fremur um það að öll kurl komi til grafar, að spillingin verði gerð brottræk, vinnubrögð breytist, leyndarmál ljúkist upp, sanngirni vísi veginn og að samfélagssáttmáli sé byggður á nýjum og heiðarlegri grunni. Hluti af þeim grunni er að ganga svo frá Icesave að þjóð og þing geti gengið í takt með sanngirni að leiðarljósi, bæði gagnvart okkar eigin samfélagi og þeim samfélögum erlendis sem við eigum við.

Engum á að hafa dulist að ég hef talist til mikilla efasemdarmanna í Icesave-málinu.

Afstaða mín mótast ekki af því að ég telji að Ísland eigi ekki að standa við skuldbindingar sínar, það er nokkuð sem við hljótum ávallt sem þjóð að leitast við að gera. Ég tel hins vegar ekki ásættanlegt að Íslandi sé meinuð réttlát og sanngjörn málsmeðferð í samræmi við alþjóðlega samninga og reglur um samskipti ríkja, hvað þá að við skulum beitt fordæmislausu harðræði svonefndra vinaþjóða í formi laga um hryðjuverk og glæpi. Því síður að þessi sömu ríki og bandalagsþjóðir skuli beita áhrifum sínum innan alþjóðlegra stofnana til að neyða okkur í átt að þeirra ýtrustu hagsmunum og burt frá okkar eigin. Eftir stendur spurningin stóra: Er það alltaf þannig — og af hverju er það þá þannig — að gróðinn sé einkavæddur en tapið samfélagsvætt?

Við þessar erfiðu aðstæður tel ég ekki viðunandi að Ísland undirgangist afarkosti. Lán sem þannig er fengið er ólán. Ekki fer á milli mála að hvað sem betur hefði mátt fara í íslenskri útrás, íslenskri hagstjórn og íslensku eftirliti — og þar var sannarlega mörgu átakanlega ábótavant — er vegferð okkar mótuð af stórgölluðu samevrópsku regluverki. Íslendingar geta ekki og eiga ekki einir að bera kostnaðinn af því að halda uppi ásýnd um óskeikulleika viskunnar frá Brussel. Við þá borg eru þó kennd viðmið sem er til farsældar að halda til haga í endanlegri afgreiðslu Icesave-málsins.

Ég tel það ógna framtíð okkar að axla meiri byrðar en við höfum lögbundna skyldu, styrk og getu til að bera. Það hljóta að vera gagnkvæmir hagsmunir allra málsaðila að Íslandi sé örugglega og ótvírætt gert kleift að rísa undir skuldbindingum sínum á hverjum gefnum tíma, hverjar svo sem þær kunna að vera. Komið hefur í ljós að skuldastaða þjóðarbúsins hefur verið vanmetin og fullkomin óvissa ríkir í raun um endurheimtur úr þrotabúi hins fallna Landsbanka. Á meðan er þó nokkuð óráðið um ábyrgð og endanlegt hlutskipti hins íslenska skattgreiðanda. Þarna ber okkur öllum skylda til að spyrna við fótum og sjá til þess að byrðin verði bærileg og standi ekki í vegi fyrir endurreisn íslensks fjármála- og efnahagslífs. Hversu veik sem staða okkar kann að vera verðum við þó að halda í það sem við þó höfum. Álitamál um túlkun og framkvæmd íslenskra laga verða að vera leidd til lykta fyrir íslenskum dómstólum og eðlilega hljótum við að leitast við að setja íslenska hagsmuni í forgrunn. Allir aðrir setja sína hagsmuni í forgrunn og okkur ber að vernda okkar samfélag.

Það blasir við að samninganefnd Íslands var í þessum efnum frá upphafi sett í nær ómögulega stöðu, einmitt vegna þess að taflið hafði verið teflt svo lengi. Sá samningur sem nú liggur fyrir, og okkur þykir svo þungbær, afurð af stöðu Íslands í þeim gríðarlegu þrengingum sem við höfum verið í, nú mánuðum saman, út á við sem inn á við. Við megum ekki falla í þá gryfju að gera svo stórpólitískt mál á heimsmælikvarða að einhvers konar persónulegum gjörningum. Ég ætla að leyfa mér að fullyrða að einnig fyrri ríkisstjórn frá því í haust, einnig fyrri ráðherrar, einnig fyrri þingmenn, voru vel flestir ef ekki allir að gera sitt besta við erfiðar aðstæður. Vegferðin öll er þakin mistökum, en þau voru tæplega gerð af illum hug. Staðreyndin er einfaldlega sú að staða Íslands er átakanlega erfið og það þarf gríðarlega mikið til, þá ekki síst mátt samstöðunnar, svo að hún megi batna.

Icesave-málið hefur sannarlega tekið á, enda hið erfiðasta hvort sem litið er til pólitískra, lagalegra, efnahagslegra eða siðferðilegra þátta. Ég virði þann skoðanamun sem hefur verið uppi, jafnt innan flokka sem milli þeirra, og ég tel hann eðlilegan en ég tel okkur nú sem þjóðþing standa þéttar saman en áður. Ég tel gríðarlega margt hafa áunnist á þeim vikum sem Alþingi hefur haft málið til meðferðar, bæði í átt að útbreiddari og víðtækari skilningi um efnisatriði málsins og samstöðu um úrlausn þess. Gögn hafa litið dagsins ljós, óvissuþættir hafa verið opinberaðir, álitamál hlotið lýðræðislega umræðu, annmarkar verið greindir. Og málið eins og það stendur nú er ekki það sama og lagt var af stað með. Þjóðþingið hefur gegnt skyldu sinni og hlutverki. Eins og allir vita taldi ég málið í upphafi óásættanlegt og lýsti því yfir að óbreytt nyti málið ekki míns stuðnings. Ég tel þá fyrirvara sem breytingartillögur fjárlaganefndar bera með sér, og breið samstaða hefur náðst um, vera til mikilla bóta.

Ljóst er að Icesave-samningarnir öðlast ekki gildi nema Alþingi Íslendinga samþykki þá ríkisábyrgð sem samningarnir gera ráð fyrir. Eins og málum er háttað er sú ríkisábyrgð ekki sjálfgefið formsatriði. Í breytingartillögunum er kveðið á um forsendur ríkisábyrgðarinnar og vísað í þeim efnum m.a. til fyrrnefndra Brussel-viðmiða. Jafnframt eru settir lagalegir og efnahagslegir fyrirvarar sem ég tel til þess fallna að leiðrétta það sem mest hallar á okkur í samningunum sjálfum.

Fyrirvarar Alþingis verða að vera órjúfanlegur hluti ríkisábyrgðarinnar verði frumvarpið samþykkt í breyttri mynd.

Eitt er það leiðarljós sem Ísland hlýtur að vilja hafa til hliðsjónar við úrlausn þessa máls, hugtakið reisn. Eins og ég sagði áður tel ég það ekki mestu skipta hvort við Íslendingar verðum eitthvað efnislega fátækari nú og á næstu árum en við höfum verið í gróðærinu. Ef minna magn af flatskjám og jeppum og ofurlaunum flæðir til landsins græt ég það ekki og þá borga ég fúslega þann hluta Icesave sem okkur ber. Miklu þungbærari eru þrengingar í velferðarkerfi okkar og svo hitt, að glata sjálfsvirðingu sinni og reisn, glata trausti og efast um eigin rétt til sanngjarnrar málsmeðferðar, efast jafnvel um eigin rödd í samfélagi þjóða.

Og hvernig göngum við fram af reisn, nú við svo erfiðar aðstæður? Við gerum það ekki með því að leggjast kylliflöt fyrir valdi kapítalsins, ofríki hinna stóru eða grímulausri misbeitingu alþjóðlegra stofnana. Við gerum það ekki með því að ljúga því að okkur sjálfum og öðrum að börn okkar og barnabörn beri beina ábyrgð á fjárglæfrum einkaaðila úti um heim, að íslensku velferðarsamfélagi sé fórnandi til að halda siðspilltu alþjóðlegu fjármálakerfi gangandi og breiða yfir grundvallargalla samevrópsks jafnt og innlends regluverks. Það eiga ekki alltaf að vera öreigar allra landa, alþýða fólks um heim, sem sitja uppi með byrðar arðránsins. Við vorum ekki spurð og þetta var ekki í okkar nafni.

Það fylgir því reisn að beygja sig ekki í duftið, heldur mótmæla ofríki hvar sem það birtist og hvernig sem það birtist og taka afleiðingunum. En það fylgir því líka reisn að koma fram af sanngirni, að standa við orð sín og skuldbindingar, sýna sáttavilja og gangast við samábyrgð þegar margir deila og allir hafa nokkuð til síns máls. Staðreyndin er sú að við komum því miður ekki að þessu Icesave-máli í tómarúmi. Þetta mál á sér langa og flókna og nokkuð tragíska sögu og ítrekað, aftur og aftur, lýstu íslensk stjórnvöld því yfir að allt væri í fínasta lagi með íslensku bankana, að ekkert væri að óttast, ríkið stæði á bak við þetta, Ísland mundi ekki fara dómstólaleiðina heldur semja um málið, Ísland tæki á sig byrðarnar o.s.frv. Staðan á skákborðinu er með öðrum orðum fyrir löngu komin út í þröngt og þvingað endatafl. En, enn og aftur, með samstilltu átaki getum við gert það besta sem hægt er úr því sem komið er. Með samstilltu átaki getum við komið fram af reisn. Alþingi Íslendinga getur komið fram af reisn og sanngirni, bæði gagnvart sinni eigin þjóð, sínum eigin umbjóðendum, sínu eigin samfélagi, og um leið gagnvart viðsemjendum okkar og mótaðilum erlendis. Það er nákvæmlega það sem ég tel að við séum í sameiningu að leitast við að gera.

Ég er stolt af því að þingmenn allir í stjórn jafnt og stjórnarandstöðu hafi af mætti reynt að sameinast um sem ásættanlegasta lausn í málinu. Slíkt hlýtur eðli málsins samkvæmt alltaf að vera erfitt og reyna á, enda ótal mörg bil að brúa, en ég tel það vera Alþingi til sóma að þingmenn leggi sig svo fram sem raun ber vitni um að ná samstöðu þvert á oft erfiðar flokkspólitískar línur og gamalgróin gífuryrði. Eitt er víst og það er það að með samtakamættinum í þessu sorglega máli þjónum við hagsmunum Íslands best.

Ég þakka þingmönnum, og fjárlaganefnd sérstaklega, fyrir þá góðu vinnu sem þau hafa lagt í málið á undanförnum vikum. Sú vinna hefur skilað árangri þótt hún hafi ekki fæðst átakalaust og þótt hún hafi fundið á vegi sínum margar ófyrirséðar hindranir. En hún fæddist og hún hefur þegar skilað árangri, og á þessum árangri verðum við áfram að byggja. Ég fagna þeim breytingum sem lagðar eru til á frumvarpinu. Ég treysti því að áfram sé unnið á grundvelli þeirrar þverpólitísku samstöðu sem byggð hefur verið upp, ég treysti því að ólíkar og misvísandi túlkanir og þau bil sem enn eru til staðar í málinu verði brúuð með farsælum hætti og ég treysti því einnig að sem breiðust samstaða megi áfram ríkja um endanlega afgreiðslu málsins, íslenskri þjóð til heilla.