137. löggjafarþing — 59. fundur,  28. ág. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

136. mál
[09:49]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Samkvæmt því sem fjármálaráðherra óskaði í upphafi þessa máls hef ég skoðað Icesave-samninginn á raunsæjan hátt og litið hann „real-pólitískum“ augum, allt eins og beðið var um. Ég hef haft ærinn tíma til að skoða þennan nauðungarsamning sem nú liggur fyrir ásamt fyrirvörum sem á síðustu vikum hefur verið klambrað saman af bestu meiningu. Mín niðurstaða er sú að Icesave-samningurinn sem lausn á vandamáli sem vissulega er til staðar sé verri lausn en vandamálið sjálft í rauninni. Því mun ég segja nei við þessum samningi ásamt öllum hinum vel meintu breytingartillögum og fyrirvörum þar að lútandi.