138. löggjafarþing — þingsetningarfundur

þingsetning.

[14:07]
Horfa

Forseti Íslands (Ólafur Ragnar Grímsson):

Hinn 18. september 2009 var gefið út svofellt bréf:

„Forseti Íslands gjörir kunnugt:

Ég hefi ákveðið, samkvæmt tillögu forsætisráðherra, að Alþingi skuli koma saman til fundar fimmtudaginn 1. október 2009.

Um leið og ég birti þetta er öllum sem setu eiga á Alþingi boðið að koma nefndan dag til Reykjavíkur og verður þá Alþingi sett að lokinni guðsþjónustu í Dómkirkjunni er hefst kl. 13.30.

Gjört á Bessastöðum, 18. september 2009.

Ólafur Ragnar Grímsson.

___________________

Jóhanna Sigurðardóttir.

Forsetabréf um að Alþingi skuli koma saman fimmtudaginn 1. október 2009.“

Samkvæmt bréfi því, sem ég nú hef lesið lýsi ég yfir því að Alþingi Íslendinga er sett.

Þegar þingmenn koma saman að nýju svo skömmu eftir langt og strangt sumarþing fer vonandi senn að ljúka erfiðasta skeiði síðari tíma í sögu okkar Íslendinga, skeiði sem reyndi mjög á þolrif þings og þjóðar, einkenndist af umróti og átökum, einnig hér við Alþingishúsið, uppgjöri í almennum kosningum og breytingum á ráðherraskipan.

Margir hjallar eru að baki, aðgerðir sem urðu deiluefni og erfitt reyndist að hrinda í framkvæmd, sársaukafullar fyrir flesta, ekki aðeins þá sem sýndu gáleysi eða glannaskap heldur líka fjölmarga sem gættu hófs, fóru með gát en bera nú saklausir þungar byrðar sem hóflaus sjálftaka og græðgi annarra leggur þeim á herðar.

Enn glíma þúsundir heimila við djúpstæðan vanda, atvinnuleysi, greiðsluþrot. Óvissa, jafnvel ótti, móta víða morgunstund og eignamissir, tekjutap og skuldabyrði setja svip á daglegt líf. Deilan við tvö nágrannalönd hefur ekki verið til lykta leidd og aðrar þjóðir bíða átekta með að efna gefin fyrirheit.

Allt er þetta þungbær reynsla. Ábyrgð okkar sem vorum og erum þjóðkjörnir fulltrúar er ótvíræð og örlagarík. Þess ber öllum að minnast á komandi missirum þegar knúið verður á um úrlausn mála, þegar stoðir nýrra tíma verða styrktar og ramminn um markað og fjármálalíf endurgerður af meiri kostgæfni en áður, með aðhaldi og ströngum reglum.

Mánuðirnir tólf frá því hrunið hófst, í þann mund sem Alþingi kom saman í októberbyrjun á fyrra ári, hafa verið tími uppgjörs og endurmats. Rannsóknarnefndin sem Alþingi kaus mun senn skila skýrslu, sérstakir saksóknarar leggja fram ákærur og dómstólar úrskurða um sök. Áfram þarf þó þjóðin öll að glíma við afleiðingar ófaranna og mikilvægt að Alþingi veiti þá forustu sem kallað er eftir, nái að leggja til hliðar flokkadrætti þegar þjóðarheill krefst víðtækrar samstöðu.

Slík samstaða náðist á fyrri öldum þegar baráttan fyrir frelsi og fullveldi setti löngum mestan svip á annirnar í þessum sal.

Hún náðist þegar allir flokkar sameinuðust um að smíða grunngerð lýðveldisins sem naut einróma stuðnings þjóðarinnar.

Hún náðist að mestu þegar landhelgin var stækkuð í áföngum og var þó herskipum Breta beitt í þrígang til að reyna að brjóta á bak aftur vilja þings og þjóðar.

Þessir sigrar fyrri tíðar eru hvatning um að halda áfram að hreinsa til eftir hrunið og leggja í sameiningu grundvöll að endurreisn, festa á ný í sessi hin gömlu gildi um samstöðu, samhjálp og bræðralag, drengskap og heiðarleika, gildin sem löngum voru aðal Íslendinga en var vikið til hliðar á liðnum árum.

Í því verki sækjum við styrk í söguna og auðlindir landsins sem reynst hafa efniviður í meiri viðspyrnu en reiknað var með á liðnum vetri.

Atvinnuleysið hefur sem betur fer enn reynst minna en óttast var þótt það hrjái nú þúsundir heimila.

Unga fólkið hefur sýnt trú á landið sitt og tækifærin sem það býr yfir og færri flutt úr landi en spáð var í fyrra.

Hinir hefðbundnu atvinnuvegir, sjávarútvegur og landbúnaður, færa björg í bú og einkennast af sveigjanleika og sóknarkrafti, afla gjaldeyris eða spara hann svo að hagur þjóðarbúsins er betri en ætlað var í dekkstu spám.

Ferðaþjónustan, einkum vítt og breitt um landsbyggðina, hefur á liðnu sumri skilað meiri arði en oftast áður. Örtröð erlendra ferðamanna var víða slík að heimamenn réðu vart við með góðu móti, gestagangurinn setti ríkulegan svip á byggðir landsins. Til míns gamla heimabæjar, Ísafjarðar, komu 27 erlend skemmtiferðaskip, flest þeirra með rúmlega eitt þúsund einstaklinga, ferðamenn og áhöfn, sum með enn fleiri. Fyrir fáeinum árum kom þar ekkert slíkt skip. Dæmin um jákvæðar breytingar er víða að finna í byggðum landsins.

Atvinnulíf byggt á menntun og hæfni, hugviti og þekkingu, hefur einnig, þrátt fyrir hrun banka og kreppu, haldið áfram að styrkjast. Fyrirtæki í upplýsingaiðnaði og öðrum tæknigreinum sem sækja á erlendan markað eru mörg hver í talsverðri sókn, ánægjulegt er að kynnast bjartsýni þeirra og hugmyndum um framtíðina.

Árangur Íslendinga við nýtingu hreinnar orku er víða þekktur og fjölmargir erlendir aðilar leita eftir samvinnu við okkur, eftirspurnin er til muna meiri en framboðið. Álfyrirtæki, gagnaver og hátækniiðnaður af ýmsum toga keppa nú um aðgang að íslenskri orku og víða í Evrópu, Asíu, á Indlandi og í Kína, í Miðausturlöndum, Afríku, Mið- og Norður-Ameríku er sóst eftir samvinnu við íslenska vísindamenn, verkfræðinga og tæknifólk.

Í sumar voru haldin hér fjögur alþjóðleg þing tengd orkumálum og sóttu þau hundruð áhrifamanna, fulltrúar helstu fyrirtækja og vísindastofnana úr öllum álfum, stjórnarþing Alþjóðaorkuráðsins, World Energy Council og heimsþing Samtaka um vatnsorku, en einnig fjölmenn ráðstefna vísindamanna sem glíma við eyðingu koltvísýrings og önnur um byltingu til „grænnar“ umferðar. Andinn í umræðum á þingunum öllum var afar jákvæður í garð Íslendinga, margir luku lofsorði á árangur okkar og vildu nánara samstarf við fyrirtæki og einstaklinga, verkfræðistofur, rannsóknarstofnanir, vísindamenn og tæknifólk.

Það er sannarlega fagnaðarefni að þrátt fyrir hrun fjármálakerfis, erfiðleikana og mistökin, er orðspor Íslands á mörgum sviðum áfram gott, virðing borin fyrir árangri okkar. Einnig meta margir á jákvæðan hátt viðbrögð þings og þjóðar við kreppunni, að hér hafi verið teknar erfiðar og sársaukafullar ákvarðanir í efnahagsmálum, kallað til lýðræðislegra kosninga og markaður skýr farvegur fyrir rannsókn og ákærur vegna gruns um misferli og glæpi í aðdraganda hrunsins.

Í samræðum við fjölda áhrifamanna sem hingað hafa komið á undanförnum mánuðum og nú nýlega í New York og Washington, í viðræðum við þjóðarleiðtoga og forustumenn í alþjóðamálum, vísindum, umhverfismálum og atvinnulífi hefur komið fram mikill vinarhugur og velvilji í garð Íslendinga, rík trú á getu þjóðarinnar til að ná fljótt fyrri styrk, bæði í krafti auðlindanna sem og hæfni fólksins og menntunar.

Mikilvægt er að vita af þessu vinarþeli og samstarfsvilja meðal annarra þjóða þegar við tökum senn af auknum krafti til við endurreisn efnahagslífsins, förum að efla á ný hagsæld heimilanna og treysta undirstöður velferðar.

Á liðnum vetri var einatt haft á orði hér heima að erlendis ríkti fjandskapur og andúð í garð Íslendinga og það var ekki laust við að við létum slíkar fullyrðingar draga úr okkur kjarkinn.

Það er alls ekki hin rétta mynd. Við eigum fjölmarga bandamenn, góðvini sem vita að breytingar á orkubúskap veraldarinnar í anda þess sem Íslendingar hafa gert á umliðnum áratugum eru forsenda þess að mannkyni verði forðað frá hrikalegum afleiðingum loftslagsbreytinga.

Áhrifamenn hafa haft á orði að í samanburði við þá áskorun kunni glíman við efnahagskreppuna um þessar mundir að reynast heimsbyggðinni auðveldari til úrlausnar. Á ráðstefnu um orkumál sem samkeppnisráð Bandaríkjanna hélt í síðustu viku í Washington var Íslandi iðulega lýst sem fyrirmynd, fordæmi sem aðrir þyrftu að fylgja.

Endurreisnin verður óðum knýjandi og þar megum við ekki láta þungbæra erfiðleika líðandi stundar skyggja á það sem jákvætt er, sóknarfærin, árangurinn sem við búum að. Kreppan hefur einkum bitnað á Reykjavík og nágrannabyggðum. Sem betur fer hefur landsbyggðin, Vesturland, Vestfirðir, Norðurland, Austfirðir og Suðurland, á liðnum mánuðum sýnt mikinn styrk.

Það er ekki einvörðungu ólgan, réttlát reiði og vonbrigði sem sett hafa svip á nýliðna tíma. Þjóðin hefur líka birst okkur í sóknarhug, samstillt og jákvæð. Tugþúsundum saman hafa landsmenn um hverja helgi frá sumarbyrjun til haustdaga flykkst á samkomur um landið allt, menningarviðburði og byggðahátíðir, íþrótta- og fjölskyldumót, mannfagnaði á söguslóðum eða í tilefni tímamóta.

Þessi mikla þátttaka, kannski meiri en nokkru sinni, sýnir að þjóðin er alls ekki buguð. Fólk hefur þvert á móti farið þúsundum saman til gleðistunda vítt og breitt um landið sitt.

Það kann að vera þversögn í þessu fólgin en líka vísbending um aflið sem býr í samtakamætti Íslendinga, að á tímum erfiðleika tökum við saman höndum, þéttum raðirnar, staðráðin í að sækja fram.

Sá árangur sem útflutningsgreinar hafa skilað, sjávarútvegur, orkuframleiðsla, upplýsingatækni, iðnaður og ferðaþjónustan, tækifærin sem felast í auðlindum landsins og hæfni fólksins, menntun og reynslu, samstaðan sem birst hefur á fjölsóttum hátíðum og viðburðum í byggðum landsins, vinarhugur og samstarfsvilji sem við finnum víða um veröld, allt þetta getur orðið okkur á næstu mánuðum og misserum efniviður í nýtt framfaraskeið.

Sóknarskeið sem treystir velferð og færir almenningi hagsæld á ný, skapar atvinnu handa öllum og styrkir stoðir lífskjaranna.

Sóknarskeið sem mótast af þeim lærdómi sem mistök fyrri ára færa okkur, tekur mið af nýjum siðferðisgrunni, ráðdeild og fyrirhyggju, samábyrgð og gagnsæi.

Þegar Alþingi kemur nú saman til fundar eru öll skilyrði til þess að þingheimur í góðri samvinnu við þjóðina rói að því öllum árum að næsta haust verði sóknarskeiðið hafið, tími hinna miklu erfiðleika á hröðu undanhaldi.

Slíkt sóknarskeið síðari hluta næsta árs er raunhæfur möguleiki, verkefni Alþingis og okkar allra að gera það að veruleika.

Í anda þeirrar sýnar bið ég alþingismenn að rísa úr sætum og minnast ættjarðarinnar.

 

[Þingmenn risu úr sætum og forsætisráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir, mælti: „Heill forseta vorum og fósturjörð. Ísland lifi.“ Tóku þingmenn undir þau orð með ferföldu húrrahrópi.]

 

[Strengjakvartett flutti lagið Hver á sér fegra föðurland. ]