138. löggjafarþing — 2. fundur,  5. okt. 2009.

Stefnuræða forsætisráðherra og umræða um hana.

[20:57]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Lausn Icesave-málsins er ekki og má ekki vera brýnasta verkefni íslenskra stjórnvalda heldur að bjarga almenningi úr rústum hrunsins og taka til við að byggja upp þjóðfélag úr vandaðri byggingarefnum en græðgi og frjálshyggju. Bretar og Hollendingar tóku Alþingi í gíslingu nú í vor og kröfðust þess með dyggum stuðningi Alþjóðagjaldeyrissjóðsins að Íslendingar játuðu afarkostum í því máli.

Nú er sumarið liðið og haustþing kemur saman og enn er Icesave-deilan fyrst á verkefnalista Alþingis. Ég er sannfærður um að yfirgnæfandi meiri hluti þjóðarinnar er algjörlega andvígur hinum svokallaða Icesave-samningi, með eða án þeirra fyrirvara sem fjárlaganefnd notaði allt sumarið til að smíða með fundahöldum og Bretar og Hollendingar taka svo fálega. Í þessu stóra máli er óviturlegt, það er beinlínis hættulegt, að ganga í berhögg við vilja þjóðarinnar.

Hlutverk Alþingis er ekki að stjórna landinu án tillits til vilja þjóðarinnar heldur er grundvallarskylda þingræðis að þingið skynji og skilji vilja þjóðarinnar og einbeiti sér að því að finna leiðir í samræmi við hann. Þing sem ekki skeytir um vilja þjóðarinnar og setur lög samkvæmt sínum geðþótta er útúrsnúningur á lýðræði. Flestum er ljóst að sú lausn er ekki fyrir hendi að snúa baki við Icesave-málinu og segja að það komi íslensku þjóðinni ekki við þótt íslensk einkafyrirtæki og stjórnendur þess skilji eftir sig sviðna jörð einhvers staðar í öðrum löndum. Við sem þjóð berum ekki ábyrgð á því að glæpurinn var framinn en afleiðingar verknaðarins eru vandamál sem við verðum að taka þátt í að leysa.

Eftir margra mánaða umræðu er ljóst að staða okkar verður aðeins verri og verri og Bretar og Hollendingar neyta aflsmunar af meiri og meiri hörku. En það er samt ekki of seint fyrir Íslendinga að standa á rétti sínum og neita að kyssa vöndinn. Við eigum að tilkynna Bretum og Hollendingum að Alþingi og þjóðin geti ekki gengið að þessum samningi og hafni honum en jafnframt eigum við að lýsa því yfir að vilji okkar standi til þess að leysa þessa deilu með sanngirni. Til að tryggja sanngirni þurfum við að fá öfluga þjóð, eins og til að mynda Frakka eða Þjóðverja, til að taka að sér að miðla málum. Þannig verður öllum ljóst að við viljum axla ábyrgð, ábyrgð okkar sem þjóð, þótt við höfnum því staðfastlega að tefla efnahagslegu sjálfstæði okkar og framtíð í voða.

Þegar húsfriður verður aftur hér á Íslandi fyrir ásókn Breta og Hollendinga og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hættir að ríða hér röftum svo að brakar í hverju tré bíður okkar það verkefni að koma böndum á heimilisreksturinn hjá okkur sjálfum. Nú bíður okkar það ferðalag að skilgreina og móta það þjóðfélag sem við ætlum okkur að búa við í framtíðinni. Í þá vegferð eigum við að taka með okkur það sem verðmætast var í því þjóðfélagi okkar sem hrundi með svo eftirminnilegum hætti fyrir ári síðan. Nú er gullið tækifæri til að skilja eftir í rústunum óþarfa prjál og glingur sem við höfðum safnað að okkur en kom að engu gagni.

Við eigum að byggja hér upp opið og lýðræðislegt þjóðfélag þar sem kraftar okkar hvers og eins fá notið sín til fulls. Við eigum líka að nota sameiginlegan styrk okkar til að standa vörð um velferð þeirra sem minna mega sín. Satt að segja vona ég að það sé prentvilla í framtíðaráætlunum ríkisstjórnarinnar og í fjárlagafrumvarpi að nokkrum manni geti komið það til hugar að skera niður til framfærslu aldraðra og öryrkja því að við hljótum að geta byggt hér upp lífvænlegt framtíðarþjóðfélag án þess að seilast ofan í veskið og ræna farlama ömmu okkar.

Við eigum að standa vörð um það í þjóðfélagi okkar sem stendur með blóma og er lífvænlegt. Það sem er visið og úr sér sprottið og hefur lifað sitt blómaskeið eigum við að grisja burt. Af hverju eigum við að rogast með fokdýra og gamaldags utanríkisþjónustu eins og talsíminn hafi ekki verið fundinn upp enn þá? Af hverju eigum við að drepa íslenska kvikmyndagerð, sem skapar hér um þúsund ársverk, með því að skera hana niður um 34% meðan framlög til annarra menningarmála eru skorin niður, eða gerum við ráð fyrir að verði skorin niður, að meðaltali um 7%? Þessum spurningum og miklu, miklu fleiri ámóta spurningum þurfum við að svara á næstunni. Okkar bíða erfið verkefni, spennandi verkefni, og uppskeran, ef vel tekst til, verður öflugt og réttlátt þjóðfélag.

Framtíð okkar veltur ekki eingöngu á því hvort við náum samkomulagi við Breta og Hollendinga á næstu dögum og vikum. Framtíð okkar veltur miklu fremur á því að við berum gæfu til þess að ákveða að standa saman um að finna lausn á þeim mikla vanda sem að okkur steðjar. Við þurfum ekki að leggjast í miklar eða tímafrekar rannsóknir á Íslandssögunni til að komast að því hvaða framtíð bíður þjóðar sem getur ekki komið sér saman um nokkurn skapaðan hlut. — Góðar stundir.