138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[12:57]
Horfa

Þór Saari (Hr) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er gott að við erum búin að færa umræðuna upp á skaplegra plan.

Eitt meginvandamál ríkissjóðs er að skattstofnar ríkissjóðs hrundu, þ.e. að þeir voru byggðir nánast á sandi. Grundvallaratriði hlýtur að vera að byggja tekjustofna ríkissjóðs á traustari grunni til framtíðar. Það er ekki gert með því t.d. að halda áfram að reyna að ná inn tekjum með tekjusköttum á lögaðila eftir hefðbundnum leiðum. Það er fyrst og fremst sá skattstofn sem hrundi og eins og við vitum hafa fyrirtæki og lögaðilar nánast í hendi sér hvað þau greiða í skatta hverju sinni.

Hins vegar eru skattar á orku, umhverfi og auðlindir stöðugri skattstofn þó að mörgum séu slíkir skattar þyrnir í augum. Þeir eru mun stöðugri og miklu betra að byggja á þeim en mörgum öðrum. Þess vegna mun ég velta upp hugmyndum í efnahags- og skattanefnd um hvernig verði hægt að breyta þessu fyrirkomulagi.