138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[13:47]
Horfa

Björn Valur Gíslason (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Kristján Þór Júlíusson spyr að því hvaða hugmyndir ég hafi varðandi nýtingu sjávarauðlinda, að auka veiðiheimildir á næsta ári til að afla tekna við að stoppa upp í þetta stóra fjárlagagat. Ég hef löngum verið þeirrar skoðunar að það megi veiða meira af fiski en við gerum, það er engin ný skoðun hjá mér, ég hef lengi verið þeirrar skoðunar og það hefur margsinnis komið fram áður hérna á Alþingi. Ég vil skoða það með mjög opnum huga hvort mögulegt er að gera það. Ég vil hins vegar ekki gera það með óábyrgum hætti þannig að það muni koma okkur í koll síðar meir, því hef ég aldrei verið talsmaður fyrir. Ég þekki það bara af reynslu minni í þessari atvinnugrein að það má gera betur hvað það varðar.

Það má líka gera betur varðandi nýtingu þeirrar auðlindar en við gerum í dag t.d. með því að vinna meira af aflanum hér heima en við gerum núna. Gerðar voru breytingar í tíð síðustu ríkisstjórnar rétt áður en hún fór frá völdum þegar þáverandi hæstv. sjávarútvegsráðherra afnam útflutningsálag á fiski. Þá var fiskur fluttur út án þess að tekið væri af honum álag af úthlutuðum kvóta eins og gert hafði verið, sem varð til þess að útflutningur á fiski hefur stóraukist síðan. Ég vil gjarnan nýta þessa auðlind miklu betur og helst hér heima. Það mun skapa okkur verðmæti í útflutningstekjum og það mun skapa atvinnu hér á landi þannig að ég tek undir þær hugmyndir hjá hv. þm. Kristjáni Þór Júlíussyni, ef hann er þeirrar skoðunar, að það megi reyna að nýta veiðistofna og þessa auðlind betur hér heima í stað þess að flytja verðmætin og atvinnuna út.