138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[14:18]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég sagði í ræðu minni að við þyrftum að skera niður í ríkisútgjöldum. Hjá því verður ekki komist. Óábyrgt væri af minni hálfu og ósanngjarnt gagnvart stjórnarmeirihlutanum að halda öðru fram. Ég benti hins vegar á að ekki er sama hvernig það er gert. Ekki má ryksuga upp á landsbyggðinni allt það sem tekið hefur áratugi að skapa. Eftir orð margra hér inni, og ég veit hver hugur hv. þingmanns Guðbjarts Hannessonar er, treysti ég á að við munum verja það sameiginlega, alveg sama hvar við stöndum í pólitík. Að mínu viti snýst þetta um að breikka skattstofnana. Ekki er hægt að skattpína heimilin og fyrirtækin meira.

Hv. þingmaður spyr sérstaklega um stóriðjuna. Stóriðjan skapar gríðarleg verðmæti og gríðarlega mikilvæg störf sem eru undirstaða margra byggðarlaga, eins og hv. þingmaður þekkir.

Svona ákvarðanir á ekki að taka á þennan hátt. Menn verða að kynna sér afleiðingar af því sem þeir ætla gera. Og núna — við þetta nýjasta útspil um stóriðjuskattinn og óskiljanlegar tafir hæstv. umhverfisráðherra, sem fer langt út fyrir sinn ramma — ætla menn fara þessa leið. Ég sagði í ræðu minni að fyrsti áfangi í Helguvík væri algjörlega í uppnámi, hvað varðar að fjármagna hann og með framkvæmdina. Þetta snýst um 12 milljarða. Ég vil að við byggjum upp meiri atvinnu, veiðum meiri fisk, búum til fleiri störf og förum okkur mjög hægt í að skattleggja fólkið meira. Það eru mörk fyrir því hvað hægt er að skattleggja einstaklinga og fyrirtæki mikið.