138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[15:36]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni fyrir þessar þörfu spurningar. Hvað varðar SÁÁ tel ég að sú mikilvirka og góða sjúkrastofnun sé partur af grunngildum samfélagsins og þarf ekki að fjölyrða um það starf sem þar er unnið. Hún er eitt af því sem verður að hlífa og er ekki partur af fitunni í samfélaginu.

Hvað Ríkisútvarpið snertir tel ég mjög eðlilegt að þar komi til umtalsverður niðurskurður. Ég hef löngum spurt mig þeirrar spurningar hvað ríkið sé að gera við rekstur á Rás 2, sem að því er ég best veit kostar þjóðarbúið 110 millj. kr. á ári. Þá peninga mætti nota til uppbyggingar SÁÁ svo dæmi sé tekið. Þetta er allt saman spurning um forgangsröðun. Einnig má t.d. hagræða í fréttastofu og dagskrárgerð á Rás 1 sem er á köflum þunglamaleg að mínu viti og hana mætti gera einfaldari miðað við þá fjármuni sem úr er að spila í samfélaginu í dag.

Hv. þingmaður spyr um veiðiheimildir. Í því árferði sem er núna á klárlega að auka þær. Það gerir venjuleg fjölskylda þegar að henni er þrengt og slíkt hið sama gerir eðlilegt þjóðarbú þegar að því er þrengt.

Hvað atvinnuuppbyggingu snertir varð ég fyrir gífurlegum vonbrigðum með ákvörðun umhverfisráðherra svo vægt sé til orða tekið. Ég varð orðlaus. Svona högum við okkur ekki þegar við þurfum á innspýtingu í atvinnulíf að halda, því fer fjarri.