138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[18:25]
Horfa

félags- og tryggingamálaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður beindi spurningu til mín sem lýtur að framtíð útibúa Tryggingastofnunar um landið. Það er rétt sem fram kom í ræðu hv. þingmanns að stefnt er að breytingum á því fyrirkomulagi í ljósi þeirra áforma sem uppi eru um sameiningu Tryggingastofnunar ríkisins, Vinnueftirlitsins og Vinnumálastofnunar í eina stofnun. Þau áform eru í vinnslu. Við erum að fá tillögur frá ráðgjöfum á næstu dögum og munum vinna áfram í samvinnu við aðila vinnumarkaðarins að frekari útfærslu þeirra hugmynda.

Hugsunin sem liggur þarna að baki er sú að ekki sé æskilegt fyrir fólk að þurfa að ganga á milli Heródesar og Pílatusar þegar um velferðarþjónustu er að ræða og mjög æskilegt að fólk fái fullnaðarsvör á einum stað. Við vitum dæmi þess að fólk sem þarf á fyrirgreiðslu að halda er í allt of ríkum mæli að ganga á milli útibúa Vinnumálastofnunar og Tryggingastofnunar. Það á jafnt við í Reykjavík og úti um land. Það sem við erum að reyna að ná utan um úti um land í þessari aðferðafræði er að byggja upp svæðastöðvar sem féllu að þeirri svæðaskiptingu sem nú er í vinnslu hjá Samtökum íslenskra sveitarfélaga í samvinnu við ríkisvaldið. Þær svæðastöðvar væru síðan áfram með fíngerðara net þjónustu niður í öll þau sveitarfélög þar sem félagsþjónustu er til að dreifa í dag. Leitað yrði samstarfs við sveitarfélögin um samhýsingu þessarar þjónustu þannig að ekki væri á neinn hátt verið að draga úr þjónustustiginu heldur fyrst og fremst að stuðla að því að fólk geti á einum og sama staðnum fengið svör við sínum velferðarmálum. Þessi aðferðafræði mundi greiða mjög fyrir möguleikanum á að flytja velferðarverkefni til sveitarfélaga, hvort heldur eru málaflokkar fatlaðra eða aldraðra.