138. löggjafarþing — 5. fundur,  8. okt. 2009.

fjárlög 2010.

1. mál
[19:14]
Horfa

Jónína Rós Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Já, svo sannarlega eigum við að skoða rekstur ríkisfyrirtækja núna og eins og ég sagði þá er ég mjög á því að við eigum að velta þar við hverjum steini og skoða hlutina.

Það sem við stöndum í raun og veru frammi fyrir núna, og er dálítið flókið á þessum tímapunkti, er að atvinnustig í landinu er öðruvísi en það hefur oft verið. Þess vegna þurfum við, um leið og við veltum við steinunum og skoðum reksturinn, þá þurfum við að skoða hvað þetta þýðir í störfum. Það er ákveðinn hluti stöðugleikasáttmálans líka að ríkið muni gæta þess að skerða ekki rekstur sinn þannig að það muni bitna mjög illilega á atvinnustigi.

Mér finnst þetta með að ríkisstjórnin hafi ekki komið sér að verki, ég er orðin dálítið leið á þessari umræðu hjá stjórnarandstöðunni vegna þess að við gleymum því mjög seint að hér sat ríkisstjórn við völd frá því árið 2007 og fram til áramóta sem í raun og veru þorði varla að rétta upp litla fingur þannig að (Gripið fram í.) — nei, minn flokkur var í þeirri ríkisstjórn en hann stýrði ekki þeirri ríkisstjórn, hann var ekki verkstjóri í þeirri ríkisstjórn — þannig að mér finnst þetta við vitum alveg frammi fyrir hverju við stöndum. Við vitum að við stöndum frammi fyrir því að bankarnir eru botnfrosnir. Þó þar sé nóg af peningum þá er allt botnfrosið. Í raun og veru höfum við ekki tækifæri til að gera allt það sem okkur fyndist að ætti að gera. En það sem ríkisstjórnin er að gera er að búa til ákveðinn ramma til að hægt verði að fara af stað. Ég vildi óska þess að svona rammagerð tæki bara eins og örskot og við gætum farið af stað. En því miður, við erum í rammagerðinni og vonandi komumst við af stað mjög fljótlega að setja eitthvað inn í þennan ramma.