138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

uppgjör á eignum Landsbankans og Icesave.

[13:39]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég geri ráð fyrir því að hv. þm. Bjarni Benediktsson fagni bæði því að tekist hefur að mínu mati mjög ásættanlegt samkomulag um uppgjör milli Nýja Landsbankans og þess gamla, samkomulag sem er ríkinu hagfellt og mun væntanlega leiða til minni fjárbindingar ríkissjóðs við endurreisn þessa banka en áður hafði verið reiknað með. Þá lítur dæmið í heild sinni þannig út að ríkið kemst vonandi frá þessu með til mikilla muna minni fjárbindingu en upphaflega var gert ráð fyrir eða vel innan við 200 milljarða í staðinn fyrir 385.

Í öðru lagi hlýtur hv. þingmaður að gleðjast yfir því að nýtt mat á eignasafni gamla Landsbankans þar sem samkomulagið frá aðfararnótt laugardagsins í London skiptir minna máli, borið saman við mat á almennum eignum bankans, leiði nú til þess að skilanefndin metur það svo að góðar líkur séu á að endurheimtur komi upp í rétt tæp 90% af forgangskröfum. Svarið við þeirri spurningu er þar með auðvitað já. Að sjálfsögðu skiptir það máli að sem minnst standi eftir af höfuðstólnum á Icesave-skuldinni þegar eignir gamla Landsbankans hafa gengið inn á þann reikning. Það er einmitt sú aðferð sem valin var í vetur að láta eignirnar borga þetta niður beint og að síðan ábyrgðist sjóðurinn og ríkið það sem út af stæði.

Það stendur ekki annað til en að kynna með þeim hætti sem gert var fyrir um þremur vikum framvindu mála í þreifingum og samningaviðræðum við Breta og Hollendinga. Viðbrögð þeirra þegar þau lágu loksins fyrir voru kynnt ríkisstjórn, stjórnarflokkum, forustumönnum stjórnarandstöðunnar og fjárlaganefnd, gott ef ekki utanríkismálanefnd einnig. Og reyndar var það svo að stjórnarandstöðuformönnum var kynnt þetta á undan ríkisstjórninni og stjórnarflokkum ríkisstjórnarinnar.

Af hverju er uppgjörið þarna á milli í erlendri mynt? Það er einfaldlega talið að það þjóni best hagsmunum beggja aðila og dragi úr (Forseti hringir.) gjaldeyrisáhættu sem annars hefði orðið að sjá fyrir með einhverjum öðrum hætti.