138. löggjafarþing — 6. fundur,  13. okt. 2009.

íslenska ákvæðið í loftslagsmálum.

[13:47]
Horfa

umhverfisráðherra (Svandís Svavarsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir hennar ágætu spurningu. Við áttum í nokkrum orðaskiptum um nákvæmlega þetta mál í vor, í maí eða júní, þar sem hún spurði sambærilegrar spurningar hér í þinginu. Ég taldi að við hefðum skilið nokkuð klárar hvað þetta varðar þannig að það væri gagnkvæmur skilningur á því hvað um ræðir. En mér er bæði ljúft og skylt að endurtaka þær röksemdir og minni líka á utandagskrárumræðu núna á fimmtudaginn um nákvæmlega sama mál.

Það er ákveðinn misskilningur þarna á ferðinni. Þingmaðurinn hefur sagt í umræðum að umhverfisráðherrann hafi afsalað sér fyrir hönd þjóðarinnar þessum heimildum en það er í raun og veru algjörlega fráleit staðhæfing og gripin úr lausu lofti. Þannig er að við erum þegar aðilar að viðskiptakerfi ESB og frá og með 1. janúar 2013 mun nærri helmingur losunar Íslands falla undir það ákvæði samkvæmt ákvæðum EES-samningsins, þar með öll losun frá stóriðju. Það liggur þess vegna fyrir að stóriðja á Íslandi á að búa við sömu skilyrði og stóriðja annars staðar á Evrópska efnahagssvæðinu frá og með þeim tíma. Það þýðir að færa verður losunarheimildir íslenskra stóriðjufyrirtækja úr undanþáguákvæðinu, þ.e. í Kyoto-bókuninni, yfir í evrópska viðskiptakerfið en ekki að Kyoto-heimildir Íslands falli niður.

Ísland á nú í viðræðum við Evrópusambandið um tæknilega útfærslu á þessum flutningi og fullyrðingar um að umhverfisráðherra afþakki þessa 15 milljarða eru algjörlega út í bláinn. Það stendur ekkert annað til en að standa vörð um starfsumhverfi íslenskra fyrirtækja, hvort sem það er í stóriðju eða annars staðar hvað þessa tilteknu hagsmuni varðar. Þeir flytjast yfir í þetta evrópska viðskiptakerfi 2013 og sitja þá við sama borð og önnur stóriðjufyrirtæki í Evrópu hvað það varðar að þurfa að kaupa losunarheimildir sínar.